Bæjarstjórn Bolungavíkur hefur samþykkt að taka 93 milljón króna lán til 15 ára hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Er lánið tekið til að endurfjármagna óhagstæð skammtímalán sveitarfélagsins sem tekin voru upphaflega vegna hafnaframkvæmda og annara framkvæmda sveitarfélagsins og að auki fjármagna framkvæmdir við vatnsveitu Bolungarvíkur, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Er lánsfjárhæðin í samræmi við viðauka við fjárhagsáætlun sem samþykktir hafa verið og gerð hefur verið grein fyrir áður á Bæjarins besta.
Breytingar á nefndaskipan
Á sama fundi bæjarstjórnar voru gerðar þrjár breytingar á skipan í nefndir bæjarins.
Sigurður Guðmundur Sverrisson óskaði eftir lausn úr umhverfismálaráði og var Björn Ingimar Sigurvaldason kjörinn í hans stað.
Margrét Jómundsdóttir fékk lausn sem varamaður í fræðslumála- og
æskulýðsráði og var Karen Arna Hannesdóttir kosin í hennar stað.
Þá urðu breytingar á velferðaráði. Fjóla Bjarnadóttir óskaði eftir ársleyfi sem formaður velferðarráðs og tók sæti sem varamaður þann tíma. Einar Guðmundsson tók sæti hennar sem formaður velferðarráðs, Kristín Ósk Jónsdóttir varð varaformaður og Helga Svandís Helgadóttir tók sæti sem aðalmaður.