Árshátíð Dýrfirðingafélagsins 5. október 2019

Fréttabréf Dýrfirðingafélagsins er komið út. Er það 2. tölublað í 29. árgangi.

Er í því sagt frá því að stjórn félagsins hefur staðið að undirbúningi árshátíðar félagsins sem haldin verður laugardaginn 5. október í Stangarhyl 4 en með því hefst formlegt vetrarstarf félagsins.

„Það er einlæg von okkar að félagsmenn og aðrir vinir og velunnarar safni liði og fjölmenni á árshátíðina enda hafa Dýrfirðingar á suðvesturhorninu sýnt svo ekki verður um villst að vilji er til að halda í þessa áratuga löngu hefð. Eftir afburða hlýtt og notalegt sumar er tilvalið að þakka fyrir og bjóða haustið velkomið í góðra vina hópi, stofna til nýrra kynna og njóta lífsins. Það er gott að gefa sér tíma til að staldra við og hlaða batteríin með skemmtilegu fólki því maður er manns gaman!“

Miðaverðið er kr. 6.900 pr. mann og innifalið í því er hlaðborð frá meistarakokkinum Guðmundi Helga Helgasyni, kaffi, konfekt, tónlist, skemmtiatriði og ball með Hafrót.

Í stjórn félagsins eru Bergþóra Valsdóttir, Gyða Hrönn Einarsdóttir, Þuríður Steinarsdóttir, Ragnar Gunnarsson og Guðmundur Helgi Helgason.

Jólafjör í Gufunesi – leitin að dýrfirska jólasveininum

Þá er sagt frá því að framundan er jólafjör eins og áður.  „Laugardaginn 7. desember kl. 13:30 ætlum við að hittast í Gufunesinu, á svæðinu bak við gamla Gufunesbæinn, sem nú hýsir Frístundamiðstöð Grafarvogs. Við finnum vonandi jólasveininn og þá ætlum við auðvitað að ganga í kringum (jóla)tré; syngja og leika okkur saman. Við verðum auðvitað með heitt kakó og piparkökur til að hressa okkur á.“

Aðalfundur í maí 2019

Ítarleg frásögn er af aðalfundi félagsins sem haldinn var 6. maí í safnaðarheimili Fella- og Hólakirkju. Auk venjulegra aðalfundarstarfa voru samþykktar nýjar úthlutunarreglur fyrir húsnæði Átthaga: „Sumarúthlutun telst gilda frá 1. júní til 15. september og gilda þá úthlutunarreglurnar. En allt utan þess þá gildir ,,fyrstu kemur, fyrstur fær“. Við úthlutun gilda eftirfarandi reglur (í forgangsröð): – hvenær umsækjandi fékk síðast úthlutað, hversu lengi umsækjandi hefur verið félagi í Dýrfirðingafélaginu, lífaldur umsækjanda, hvort umsækjandi fékk úthlutað á álagstíma eða á tíma sem enginn sótti um á, sama gildir um varavikur, aðrar ástæður, stórafmæli, jarðafarir, ættarmót o.s.frv.“

Ólafía Sigríður Sigurjónsdóttir var gerð að heiðursfélaga í Dýrfirðingafélaginu. Í greinargerð með tillögunni segir.

,,Ólafía hefur sinnt fórnfúsu sjálfboðastarfi í 33 ár við að hafa umsjón með Átthaga, bústað félagsins í landi Hvamms í Dýrafirði. Hún hefur verið vakin og sofin yfir ástandi bústaðarins og gripið inn í áður en í óefni hefur verið komið. Hún hefur brugðist við af vinsemd og alúð þegar dvalargestir, eða stjórn félagsins, hafa þurft á aðstoð að halda. Hún hefur gert félaginu kleift að halda úti rekstri Átthaga því án aðstoðar heimafólks væri það ekki mögulegt. Hennar framlag hefur verið félaginu ómetanlegt og fyrir það viljum við þakka af alhug.“

DEILA