Í nýrri könnun MMR um þau fyrirtæki sem Íslendingar mæla helst með stekkur mjólkurvinnslan Arna í fimmta sæti listans. Það sem meira er og vekur sérstaka athygli, er að 40% Íslendinga segjast nú nota vörur frá Örnu að staðaldri, sem er hærra hlutfall viðskiptavina en hjá nokkru öðru fyrirtæki á lista þeirra fimm efstu.
Þessar og fleiri eru helstu niðurstöður nýjustu mælingar MMR á meðmælavísitölu 135 þjónustu- og framleiðslufyrirtækja sem birt var nú í morgun.
Annað árið í röð trónir Fjarðarkaup toppi listans. Í öðru sæti er Hreyfing líkamsræktarstöð og Costco besnínstöð í því þriðja. Í fjórða sæti er Storytel ákskriftarþjónusta og Arna í fimmta sæti sem fyrr segir.
Meðmælavísitalan byggir á Net Promoter Score aðferðafræðinni en meðmælavísitalan byggir, líkt og nafnið bendir til, á mælingum á því hversu líklegir einstaklingar eru til að mæla með (eða hallmæla) fyrirtækjum sem þau hafa átt viðskipti við. Niðurstöður mælinganna gefa því góða tilfinningu fyrir stöðu fyrirtækja á íslenskum markaði enda hafa rannsóknir sýnt að meðmæli eru stór áhrifaþáttur í ákvörðunartöku neytenda um hvort stofna eigi til viðskiptasambands við fyrirtæki.
Upplýsingar um framkvæmd
Meðmælavísitalan var reiknuð fyrir einstaklinga sem voru í reglulegum viðskiptum við viðkomandi fyrirtæki. Spurt var: „Hversu líklegt eða ólíklegt er að þú mælir með þjónustu [fyrirtækis/stofnunar/sveitarfélags] við vini eða kunningja?“. Viðskiptavinir svöruðu á kvarðanum 0 (mjög ólíklegt) til 10 (mjög líklegt) og voru flokkaðir í hvetjendur (þeir sem svöruðu 9 og 10), hlutlausa (þeir sem svöruðu 7 og 8) og letjendur (þeir sem svöruðu 0 til 6). Meðmælavísitalan var reiknuð með því að draga hlutfall letjenda frá hlutfalli hvetjenda. Meðmælavísitala gat því verið á bilinu -100% til 100%.
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.