Alþjóðlegur sumarskóli um hafið og loftslagsmál haldinn í Blábankanum á Þingeyri

Samtökin Future Food Institute í samvinnu FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, standa nú fyrir sumarskólum um matvælaframleiðslu og loftslagsmál.

Þrír slíkir skólar fara fram í ár. Sá fyrsti var haldinn í New York með þemað borgir, annar í Tókíó um sveitir, og sá þriðji er nú í fullum gangi á Þingeyri með þemað hafið.

 

Skólinn fer fram í Blábankanum á Þingeyri frá 1. – 6. september og er von á frumkvöðlum og áhrifafólki á sviði matvælaframleiðslu og loftslagsmála alls staðar að úr heiminum. Sameiginlegt markmið skólanna er að finna áþreifanlegar aðferðir og nýjungar til að vinna gegn loftslagsbreytingum.

 

Future Food sumarskólarnir um loftslagsmál beina sjónum að mikilvægustu sviðum nýsköpunar og öðrum leiðum til þess að vinna gegn loftslagsbreytingum. Skólarnir leiða saman hreyfivalda allstaðar að úr heiminum úr ólíkum áttum til þess að marka saman áþreifanlegar stefnur og móta nýjungar til þess að hraða aðgerðum í loftslagsmálum og vinna að sjálfbærnimarkmiðum.

 

Á morgun, fimmtudaginn 5. september fer fram opin vinnustofa þar sem nemendur skólans vinna samhliða þátttakendum frá Vestfjörðum og víðar að raunhæfum lausnum er tengjast matvælaiðnaði, hafi og loftslagsmálum. Sjá hér: https://www.facebook.com/events/738795466566300/

Sara Roversi, Stofnandi Future Food Institute:

„Í samstarfi við FAO er markmið að hraða breytingum og finna fólk sem vill láta til sín taka. Við gerum það með því að halda þrjú sumarnámskeið á mjög ólíkum stöðum um heiminn. Námskeiðin í New York og Tókíó hafa gengið mjög vel, en það er mikil eftirvænting hjá okkur að komast í tæri við óspillta náttúru á Þingeyri, læra meira um áskoranir Vestfjarða, kynnast nýjustu tækni í sjávarútvegi, og hvernig Íslendingar eru að nýta nánast allt af fiskinum.“

 

Um Blábankann:
Blábankinn er frumkvöðlamiðstöð og hreyfiafl fyrir samfélagslega nýsköpun, fyrir heiminn og fyrir þorpið. Vestfirðir hafa í gegnum aldirnar byggst upp kringum sjósókn og nýtingu hafsins, og tengsl samfélags og náttúru eru enn sterk. Mikil sjávartengd nýsköpun gerjast þar nú, sem sést m.a. í fyrirtækjum líkt og Kerecis og samfélaginu kringum háskólasetur Vestfjarða.

 

DEILA