Aðgangur fyrir íslenskan eldisfisk á Kínamarkað orðinn að veruleika

Frá því er greint á vefsíðu utanríkisráðuneytisins að fyrsta sendingin af íslenskum laxi sé farin með flugi til Kína.  Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og Ni Yuefeng, tollamálaráðherra Kína undirrituðu samkomulagið sem m.a. nær til útflutnings íslensks eldisfisks í heimsókn þess síðarnefnda til Íslands síðastliðinn maí. Við tók tæknileg undirbúningsvinna íslenskra og kínverskra sérfræðingar á sviði matvælaeftirlits sem nú hefur loks verið til lykta leidd.

Það er dýrfirskur lax frá Arctic Sea Farm var fyrstur til að vera seldur til Kína. Með þessu hefur opnast gríðarstór markaður fyrir íslenskan eldislax.

Eftirspurn eftir eldisfiski og þá sérstaklega laxi hefur vaxið ört í Kína undanfarin ár. Kínverskir neytendur greiða hátt verð fyrir gæða fiskeldisafurðir og tollfríðindi sem íslenskir útflytjendur njóta á Kínamarkaði á grundvelli fríverslunarsamnings ríkjanna eykur samkeppnishæfni þeirra enn fremur. Því er um töluvert hagsmunamál fyrir íslenskt atvinnulíf að ræða.

Mikill vöxtur hefur verið í fiskeldi á Íslandi undanfarin ár, heildarframleiðslumagn íslenskra fiskeldisfyrirtækja hefur fjórfaldast sl. áratug og nam útflutningsverðmæti fiskeldisafurða 13,1 milljarði króna árið 2018.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja í fréttabréfi sem birtist í dag að áætlað er að útflutningsverðmætið verði 24 milljarða króna á þessu ári.

 

DEILA