VÍS mótið í golfi var haldið á Tungudalsvelli laugardaginn 3. ágúst. Veðrið lék við keppendur, sem voru 34 talsins, logn, hlýtt en þokuloft framanaf en sólin náði að bræða af sér um miðjan daginn. Keppt var í höggleik í karla og kvennaflokki og punktakeppni.
Sigurvegari var Karl Ingi Vilbergsson á 78 höggum, en hart var barist um annað sætið þar sem Baldur Ingi Jónasson og Gunnsteinn Jónsson voru jafnir á 80 höggum, og þurftu að heyja bráðabana. Baldur náði að sigra Gunnstein sem þá lenti í þriðja sæti.
Í kvennaflokki voru Guðrún Lilja Rúnarsdóttir og Ásgerður Þórey Gísladóttir jafnar á 89 höggum.
Sigurvegari í punktakeppni án forgjafar var Karl Ingi Vilbersson á 30 punktum en með forgjöf sigraði Karl Hjálmarsson með 39 punkta.
Það var Golfklúbbur Ísafjarðar sem hélt mótið en styrktaraðili þess var tryggingafélagið VÍS sem rekur útibú á Ísafirði.