Vinsamlegast talið íslensku, takk.

Á Ísafirði um þessar mundir eru staddir einstaklingar frá öllum heimshornum. Nei, hér er ekki átt við gesti skemmtiferðskipanna. Hér er átt við þá einstaklinga sem læra íslensku hjá Háskólasetri Vestfjarða. Íbúar Ísafjarðar ættu vissulega að kannast við árlega komu fólks sem á það kannski til að bera sum íslensku orðin ekki alveg rétt fram og beygja hugsanlega sumar sagnir eða nafnorð á einkennilegan hátt.

Síðan 2008 hefir Háskólasetur Vestfjarða nefnilega staðið að íslensku námskeiðum fyrir útlendinga. Í gegnum tíðina hefir fjöldinn allur af fólki komið til Ísafjarðar til að læra og æfa sig í íslensku hjá Háskólasetrinu. Námskeiðin eru iðulega í ágúst og er þessi mánuður engin undantekning.

Í þessum skrifuðu orðum er byrjendanámskeið í gangi. Hófst það 6.ágúst. Þann 15.8. byrjar vikunámskeið eða hraðnámskeið fyrir byrjendur. Sé bætt einni viku við er komið að þeim sem lengra eru komnir. 26. ágúst er fyrsti dagur framhaldsnámskeiðs Háskólaseturs. Annað framhaldsnámskeið hefst 6. september.

Til að gera langa sögu stutta þá er slatti af allra þjóða fólki í bænum með það markmið að læra íslensku eða verða betra í íslensku.

Það liggur í augum uppi að hjá mörgum þeirra ristir íslenskukunnáttan enn sem komið er ekki djúpt. Skortur er á orðaforða, framburði er oft ábótavant og málfræðireglurnar á reiki. Það er skiljanlegt. Því er nauðsynlegt að nemendur hafi tækifæri til þess að festa í sessi það sem þeir læra og fái jafnvel einhverja tilsögn um það sem betur mætti fara.

Þar komið þið inn í spilið, kæru íbúar Ísafjarðarbæjar. Nú fer því fjarri að ætlast sé til að þið bregðið ykkur í kennarahlutverk og takið nemendur Háskólaseturs upp á ykkar arma. Nei, Háskólasetur hefir ágætis kennara sem leitast við að kenna nemendunum íslenskuna á markvissan hátt.

Eitt er það þó sen þið getið gert:
Þegar útlendingur með íslensku á vör ávarpar ykkur væri æskilegast ef þið slepptuð því (mestmegnis) að tala ensku og leggðuð ykkur í líma við að tala skýra og skilmerkilega íslensku svo og að hugsanlega nota einfaldari orðaforða og styttri setningar en ella. Þetta snýst mikið til um að tala á aðeins meðvitaðri hátt og leitast við að gera sig skiljanlegan.

Það vill nefnilega oft brenna við að helsta umkvörtunarefni útlendinga sem keppast við að læra íslensku sé hve fljótir Íslendingar séu að grípa til enskunnar og það jafnvel þótt viðkomandi hafi byrjað samtalið á íslensku. Framandi hreimur, málfræðivilla eða einkennilegur framburður getur oft fengið Íslendinginn til þess að skipta sjálfkrafa yfir á ensku.
Slíkt getur verið ergjandi fyrir fólk sem leggur sig í líma við að tala og læra málið og gæti hugsanlega stuðlað að því að einhverjir leggi árar í bát. Til hvers að vera að þessu ef fólk talar ekki íslensku á móti gæti einhver spurt sig.

Það er einmitt mergur málsins að til þess að verða betri í málinu þarf fólk að hafa möguleikann á því að nota það og til þess að geta notað það þurfa Íslendingar að tala málið við þá.

Ergo: Vinsamlega talið íslensku við nemendur Háskólaseturs.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson.
Höfundur er einn af íslenskukennurum Háskólaseturs Vestfjarða

DEILA