Vestri í efsta sæti

Samúel Samúelsson og Bjarni Jóhannsson.

Með sigrinum á Víði Garði komst Vestri á toppinn í 2. deildinni í fyrsta sinn í sumar þar sem Leiknir Fáskrúðsfirði tapaði á sama tíma fyrir Selfossi. Vestri er með 36 stig eftir 18 umferðir. Leiknir er með 34 stig í öðru sæti. Selfoss er í þriðja sæti með 32 stig og Víðir situr í fjórða sæti með 29 stig.

Aðeins eru fjórar umferðir eftir og er staða Vestra heldur betur farin að vænkast. Vestri á eftir tvo heimaleiki gegn tveimur neðstu liðunum Tindastóli og Knattspyrnufélagi Garðabæjar. Næst er útileikur í Eyjafirðinum gegn Dalvík/Reyni. Síðan kemur heimaleikur gegn KFG. Næstsíðasti leikurinn er uppgjör núverandi toppliða á Fáskrúðsfirði og síðasti leikurinn verður á Torfnesinu gegn Tindastóli.

Vestra hefur gengið bölvanlega gegn neðstu liðunum og hefur tapað sínum leikjum gegn þeim á útivelli, en verið þeim mun öflugri á heimavelli. Bjarni Jóhannsson, þjálfari Vestra segir að liðið ætti að vinna þessa heimaleiki, en varar samt við því að slá neinu föstu, minnugir úrslitanna fyrr í sumar. Hann sagði að Vestra liðið hefði nú sýnt í síðustu leikjum mikinn vilja til þess að vinna og það hugarfar væri úrslitaatriði. Þá hefðu áhorfendur verið alveg frábærir, sérstaklega á síðasta leik sem vannst undir blálokin.

Staða Víðis er lökust af efstu fjórum liðunum, en Víðir er 7 stigum á eftir Vestra og þótt ekkert sé útilokað í knattspyrnu er ólíklegt að Víðir blandi sér í toppbaráttuna, en tvö efstu liðin vinna sér sæti í Inkassodeildinni næsta sumar.

Selfoss á eftir þrjá leiki á útivelli og aðeins einn heimaleik. Hins vegar eru andstæðingar þeirra einkum lið í neðri hluta deildarinnar og Selfoss er á hælum tveggja efstu liðanna og geta hæglega náð þeim að stigum.

Allt stefnir því í spennandi lokaumferðir þar sem lið Vestra á góða möguleika á sigri í deildinni.

DEILA