Árleg Töfraganga verður haldin á Ísafirði laugardaginn 10. ágúst. Gangan hefst kl. 10:45 við Byggðarsafnið í Neðstakaupstað. 43 börn af 10 þjóðernum sem hafa verið á Tungumálatöfranámskeiði fleyta af stað flöskuskeyti. Síðan verður gengið að Edinborgarhúsinu þar sem boðið er upp á töfrasýningu, söng og leiki. Einnig verður boðið upp á matarupplifun þar sem galdraðir verða fram réttir frá Pakístan, Írak, Þýskalandi, Nígeríu, Tælandi, Bandaríkjunum, Króatíu, Póllandi og Íslandi.
Vaida Bražiūnaitė er verkefnastjóri í ár og segir mjög spennandi hvernig bæði námskeiðið og gangan sé að þróast. “Börnin læra íslensku í gegnum söng og myndlist og í ár bættist töframaður við í kennarahópinn. Þema ársins á námskeiðinu og í göngunni á morgun er því töfrar og töfrabrögð.”
Fagna fjölbreytileikanum
Allir sem eru staddir á Ísafirði eru hvattir til að koma og fagna fjölbreytileikanum í göngunni á morgun. Fólk er hvatt til að koma í litríkum klæðnaði eða búningum.
Verkefnið er rekið af Menningarmiðstöðinni Edinborg og framkvæmt með stuðningi frá Ísafjarðarbæ, Uppbyggingarsjóði, Barnamenningarsjóði, VerkVest, FossVest, HG, Íslandssögu og Klofningi, Landsbankanum, Pennanum-Eymundson og Nettó.