Tekjuhæsti Vestfirðingurinn

Steindór Sigurgeirsson.

Fjárfestirinn Steindór Sigurgeirsson, fyrrum eigandi Storms Seafood, var tekjuhæstur allra Vestfirðinga árið 2018, samkvæmt álagningaskrá ríkisskattstjóra. Tekjur hans á árinu 2018 námu rúmum 1,2 milljarði króna á árinu og var þar að mestu um fjármagnstekjur að ræða. Þetta kemur fram á vefmiðlinum stundin.is.

Steindór Sigurgeirsson er upp runninn á Patreksfirði, en hefur að mestu verið búsettur erlendis síðustu tvo áratugi, lengst af í Hong Kong. Hann býr nú á Ítalíu og á Patreksfirði, eftir því sem næst verður komist. Það vakti athygli þegar fyrirtæki Steindórs, Stormur Seafood, keypti til landsins fullkomið línu- og netaskip í árslok 2017. Skipið Stormur HF 294 lá lengi aðgerðalaust í höfn í Reykjavík, en á árinu 2018 seldi Sigurgeir skip og kvóta til nýrra eigenda. Það er sennilegt að háar skattgreiðslur hans séu vegna fjármagnstekna vegna sölunnar. Fiskiskipið Stormur var selt fyrr á þessu ári til Kanada fyrir tæpa tvo milljarða króna. Þess má geta að samkvæmt fréttum á Steindór einnig fasteignir í Kvosinni í Reykjavík og um 5% hlut í vefmiðlinum Stundinni.

Steindór skýtur öðrum vestfirskum stóreignamönnum afturfyrir á lista tekjuhæstu einstaklinga sem skráðir eru á Vestfjörðum. Á eftir Steindóri koma þrír útgerðarmenn frá Bolungarvík, Guðmundur Einarsson, Ketill Elíasson og Jón Þorgeir Einarsson, bróðir Guðmundar.

DEILA