Reisugildi á Eyrarskjóli

Eyrarskjól. Mynd: isafjordur.is

Síðustu þaksperrunni var komið fyrir á viðbyggingunni við leikskólann Eyrarskjól í gær, fimmtudaginn 22. ágúst, og af því tilefni var að sjálfsögðu haldið reisugildi.

Að sögn Guðríðar Guðmundsdóttur, leikskólastjóra, ríkir mikil gleði á Eyrarskjóli með áfangann enda markar hann stórt skref í ferlinu. Breytingarnar á húsnæði Eyrarskjóls eru umfangsmiklar því fyrir utan viðbygginguna er verið að reisa tengigang meðfram öllu húsinu sunnanverðu og breyta miðhluta hússins þar sem eldhús verður stækkað, skipt um gólfefni og klæðningar.

Veðrið í sumar hefur verið hagstætt fyrir iðnaðarmennina sem að verkinu koma en þó hafa ýmis mál komið upp sem hafa valdið því að verkið er um þremur vikum á eftir verkáætlun.

Frá þessu er greint á vefsíðu Ísafjarðarbæjar.

DEILA