Friðlýsing: Ráðherra vinnur samkvæmt rammaáætlun

Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks ehf segir í grein á vefnum fréttabladid.is í morgun að meðal athyglisverðustu tíðinda liðinnar viku hafi verið sú frétt að umhverfisráðherra hefur nú friðlýst vatnasvið Jökulsár á Fjöllum gegn allri orkuvinnslu í framtíðinni. Bendir Birna á að ákvörðun ráðherra er í fullu samræmi við verndarflokk núgildandi rammaáætlunar og jafnframt fyrsta friðlýsingin sem ráðist er í á grundvelli áætlunarinnar.

Í greininni segir:

„Friðlýsingin er mikið gleðiefni og er, að því er virðist, óumdeild. Enginn mótmælir ákvörðun ráðherrans enda er hún í samræmi við þá sátt sem rammaáætlun var ætlað að skapa um vernd og orknýtingu náttúruauðlinda Íslands. Undirbúningur rammaáætlunar tók marga áratugi og það þóttu mikil tímamót þegar Alþingi samþykkti hana 14. janúar 2013.

Rammaáætlun er vandlega unnin málamiðlun. Sumir telja of marga kosti vera í nýtingarflokknum á meðan öðrum þykir of langt gengið í verndarflokknum. Úr verður samkomulag um ákveðinn milliveg. Það er mikilvægt að heiðra slíkt samkomulag en ekki bara hluta þess.

Í rammaáætlun er ekki hægt að gera eins og með konfektkassann á jólum, að velja bara bestu molana úr og skilja þá eftir sem manni líkar ekki. Það verður ekki bæði sleppt og haldið við framkvæmd rammaáætlunar.“

Birna Lárusdóttir segir að fyrst niðurstaða rammaáætlunar Alþingis um það hvaða virkjunarkostir lentu í verndarflokki sé grundvöllur ákvörðunar ráðherra verði að ætla að sama gildi um kostina sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar og því hljóti ráðherrann að afgreiða kröfur um friðlýsingu Ófeigsfjarðarheiði í samræmi við flokkun Hvalárvirkjunar í rammáætluninni.

„Það er því enn gleðilegra fyrir þá sem standa að verkefnum í nýtingarflokki rammaáætlunar, s.s. VesturVerk ehf. sem hyggur á byggingu Hvalárvirkjunar, að ráðherra umhverfismála skuli nú taka af skarið og framkvæma sköruglega í samræmi við rammaáætlun. Hann hlýtur að meðhöndla verkefni í öðru flokkum áætlunarinnar með sama hætti og leggja sig fram um að tefja ekki framgang þeirra.“

 

 

 

DEILA