Ókeypis hátíðin Act alone á helginni

Einleikjahátíðin Act alone verður haldin um næstu helgi. Verður hátíðin á Suðureyri eins og undanfarin ár. Það er ókeypis á alla viðburði Actsins og segir Elfar Logi Hannesson að dagsskráin hafi aldrei áður verið jafn vegleg. Alls verður boðið uppá 33 viðburði á 3 dögum.

„Eitthvað fyrir alla konur, karla og ekki síst krakkalakka. Því laugardagurinn verður undirlagður veglegri dagskrá fyrir börn á öllum aldri. Það er ekki nóg með að það sé ókeypis á Actið heldur er einnig hægt að fara ókeypis á hátíðina. Langferðabifreið Actsins fer daglega Ísafjarðar og Suðureyrar.“

Áætlun langferðabifreiðarinnar sem og dagskrá Actins er á heimasíðu hátíðarinnar www.actalone.net

Alltof langt mál er að telja upp alla þá 33 viðburði sem verða á dagskrá Actsins í ár. En óhætt er að segja eitthvað sé fyrir alla. Einleikir eru að vanda í boði má þar nefna hinar vinsælu sýningar Velkomin heim og Allt sem er frábært. Boðið verður uppá einstaka tónleika með tveimur kynslóðum ef svo má segja, annars vegar hinum færeyska Jógvan og hins vegar hinum eina sanna Magnúsi Þór Sigmundssyni. „Gaman er að geta þess að í ár útskrifuðust nærri einn tugur Vestfirðinga úr Listaháskóla Íslands“ segir Elfar Logi. Langflest þeirra sýna á Actinu í ár og munu þau yfirtaka Þurrkverið á Suðureyri sem verður nú aftur hinn aðalsýningarstaður Actins. Hjartað er að vanda Félagsheimilið þar sem rjóminn af dagskránni fer fram.

www.actalone.net

DEILA