Nýtt átak gegn Þ-H leið: pírati í borgarmálum vill vernda Teigsskóg

Valgerður Árnadóttir.

Valgerður Árnadóttir og Karl Fannar Sævarsson hafa efnt til átaks sem heitir:  verndum Teigsskóg. Þau skýra frá þessu í aðsendri grein á frettabladid.is í gær.  Þau segja í greininni að framkvæmdirnar eyðileggi svæði á stærð við 80 fótboltavelli og vilja að svonefnd D2 leið verði farin. Þau skora á fólk að mótmæla framkvæmdunum og stöðva þær og benda á að tími til þess að gera athugasemdir renni út 25. ágúst.

D2 leiðin gerir ráð fyrir jarðgöngum og kostar um 6 milljörðum króna meira en Þ-H leiðin sem kostar rúma 7 milljarða króna.

Bæjarins besta sló á þráðinn til Valgerðar og innti hana eftir því hvers vegna þau færu af stað núna. Hún segir ekkert hafi verið hlustað á þá sem eru gegn raski í Teigsskógi, fjölmiðlaumfjöllun hafi ekki verið sanngjörn og villandi og að fólki viti ekki um hvað málið snúist.  Valgerður segir að þótt vegagerðin raski ekki nema litlum hluta skógarins hafi hún þær afleiðingar að allur skógurinn verði í hættu. Aðspurð kvaðst hún hafa stærðina 80 fólboltavelli frá fólki sem til þekkti, svo sem  skógfræðingum og Landvernd. Þetta jafngildir rúmlega 50 hektara svæði.  Ennfremur benti Valgerður á að dýralíf myndi eyðileggjast og þarna væri sjaldgæfir fuglar eins og haförn.

Valgerður segist beina máli sínu helst til Vegagerðarinnar, sem hafi staðið sig sóðalega og verið til skammar. Hún vonast til þess að hætt verði við Þ-H leiðina.

Hún var spurð að því hvers vegna farið væri af stað núna undir lok málsins sem tekið hefur mörg ár og mörg tækifæri hafi gefist til þess að koma sínum skoðunum á framfæri; hvort ekki ætti að virða leikreglurnar.

„Rangt er rangt. Við berjumst til síðastu stundar“ svaraði Valgerður Árnadóttir.

Valgerður Árnadóttir býr í Reykjavík og var í 5. sæti á framboðslista Pírata fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Hún er jafnframt í framkvæmdaráði Pírata, en segir að það sé ólaunað starf.

Í kynningu á Valgerði  fyrir borgarstjórnarkosningarnar segir:

„Ég er framkvæmdastjóri Samtaka Grænmetisæta á Íslandi og skipulegg alla þeirra viðburði eins og Veganúar ofl. og ég rek mitt eigið viðburðarfyrirtæki sem heitir Puzzy Patrol og sérhæfir sig í að skipuleggja viðburði með listakonum og femínískum talskonum til að styrkja og styðja konur í listum, fræða almenning um femínisma og skapa jákvæðan umræðugrundvöll.“

DEILA