Náttúrufræðistofnun: 46 trjáholur í Strandarfjöllum og við Hvalá

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur gefið út skýrsluna Frumrannsókn á trjábolaförum í Ófeigsfirði (pdf, 9,4 MB). Í henni er greint frá niðurstöðum frumathugana á útbreiðslu trjáhola á hluta af fyrirhugðu framkvæmdasvæði vegna virkjunar við Hvalá í Ófeigsfirði. Höfundar skýrslunnar eru Lovísa Ásbjörnsdóttir og Sigríður María Aðalsteinsdóttir jarðfræðingar.

Í skýrslunni segir að margar fallegar trjáholur hafi fundist á svæðinu og þá sérstaklega í efri hluta Strandarfjalla þar sem þær virðast betur varðveittar. Alls voru skráðar 46 holur í Strandarfjöllum og við Hvalá sem voru vel varðveittar og greinilegar. Til viðbótar voru 29 skráningar um óviss för, aðallega vegna rofs. 

Rannsóknarsvæðið er um 70 ha (0,7 km2 ) og nær yfir hlíðar Strandarfjalla og láglendið austan við þau. Á svæðinu sem skoðað var er fyrirhugað að leggja veg upp á Ófeigsfjarðarheiði vegna rannsókna í tengslum við Hvalárvirkjun.

Frumathuganir á trjábolaförum í Ófeigsfirði gefa ástæðu til að skoða svæðið betur með tilliti til trjáhola segir í skýrslunni og einnig að „trjábolaför eru þekkt fyrirbæri í eldri jarðlagastöflum landsins, á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Förin veita einstaka innsýn í fornt loftslag sem ríkti er hraunið rann yfir skóglendi.“ 

Loks kemur fram að „Samkvæmt munnlegum heimildum og ljósmyndum heimamanna er ljóst að trjáholurnar finnast einnig utan rannsóknarsvæðisins sem hér hefur verið lýst, t.d. upp með gljúfrum Hvalá, við Drynjanda og á Ófeigsfjarðarheiði.“ 

Í útdrætti um efni skýrslunnar segir: „Ekki er vitað til þess að svona margar trjáholur hafi verið skrásettar á Íslandi á svo litlu svæði, sem er innan við ferkílómetri að stærð. Þetta gæti þýtt tvennt, að svæðið við Ófeigsfjörð sé óvenju ríkt af trjábolaförum eða að
þau séu mun útbreiddari í jarðlögum en áður hefur verið talið.“  Þá segir að „full þörf sé á að skoða og rannsaka svæðið enn betur, gera berg- og aldursgreiningar á hraunlögum, kanna síðjökultímamyndanir við Ófeigsfjörð og síðast en ekki síst að kortleggja jarðfræðina.“

Aðeins ein rannsókn

Trjáholum er svo lýst í skýrslunni að þær séu steingervingar og njóti verndar samkvæmt 60. gr. náttúruverndarlaga (60/2013) sem fjallar um steindir og steingervinga. Trjáholur hafa fundist á allnokkrum stöðum á Íslandi og þá sérstaklega í míósenjarðlagastaflanum.  Trjábolaför hafa hingað til ekki verið kortlögð kerfisbundið og einungis er vitað um eina trjáholurannsókn sem fram fór í Skriðnafellsnúpi á Barðaströnd.

Þá segir að sumarið 2018 hafi fundust nokkur trjábolaför í hraunlagastaflanum við Ófeigsfjörð.  Þar sem ekki var vitað hversu útbreidd eða algeng trjábolaför eru á svæðinu var farið í vettvangsferð þangað dagana 6.–8 ágúst 2019 og skýrslan er afrakstur þeirrar ferðar. Ekkert er minnst á nýlegan fund tveggja stjórnarmanna Ófeigs, Sifjar Konráðsdóttur og Snæbjarnar Guðmundssonar og bréf þeirra til Náttúrufræðistofnunar Íslands sem aftur var tilefni rannsóknarferðarinnar.

Hægt að banna töku steingervinganna

Í 60. grein Náttúruverndarlaga sem vitnað er til í skýrslunni segir að ráðherra geti að fenginni tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og umsögn Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis gefið út reglugerð og verndað steingervinga með því að takmarka eða banna töku þeirra úr föstum jarðlögum ef það er nauðsynlegt til að tryggja vernd þeirra. Er þá Umhverfisstofnun falin framkvæmdin.

Það er ekki að sjá að lagagreinin veiti vald til að stöðva framkvæmdir við vegagerð á þessu svæði eða banna þær á einhverju tilteknu eða ótilteknu svæði, en við framkvæmdir mætti væntanlega ekki losa steingervinga.

DEILA