Makríll: verðið í Noregi fjórfalt hærra en hér á landi

Á síðasta ári varð meðalhráefnisverð í Noregi fyrir makríl bæði til vinnslu og til bræðslu fjórfalt hærra en það var á Íslandi. Verðið í Noregi var 177,6 kr/kg en aðeins 45,1 kr/kg á Íslandi, reiknað í íslenskum krónum. Munurinn var 132,5 kr/kg.

Verðmunurinn var einkum á makríl sem fór til vinnslu innanlands. Þar var verðið í Noregi í fyrra 178 kr/kg en á íslandi var það aðeins 47,3 kr/kg.

Þetta kemur fram í gögnum sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur birt á vefsíðu sinni. Teknar voru saman upplýsingar um árin 2012-2018 í báðum löndum.

Verðupplýsingar makríls á Íslandi eru unnar upp úr vigtar- og ráðstöfunarskýrslum innsendum af aflakaupa til Fiskistofu. Aðeins eru notaðar upplýsingar frá fyrirtækjum á Íslandi sem kaupa afla (hráefni) í beinum viðskiptum af innlendum skipum og reka landvinnslu og bræðslu.

Verðupplýsingarnar  fyrir makríl í Noregi byggjast á upplýsingum frá Norges Sildesalgslag og eiga við um norsk skip sem landa makríl til frekari vinnslu eða bræðslu í Noregi. Meðalgengi Seðlabanka Íslands (miðgengi) NOK/ISK er notað til að skipta yfir í íslenskar krónur.

Á þessum sjö árum hefur munurinn verið þrefaldur til fjórfaldur þar sem verðið í Noregi hefur verið hærra öll árin.

Afurðaverðið hærra í Noregi

Verðalgsstofan birtir einnig upplýsingar um afurðaverðið, það er verðið fyrir afurðirnar sem voru seldar til útflutnings. Norðmenn fá hærra verð fyrir heilfystan makríl en Íslendingar. Meðalverðið í fyrra var 195,3 kr/kg fyrir norskan útflutning en 166,3 kr/kg fyrir íslenskan.

En það var fyrir markílflök þar sem Norðmenn fengu langtum hærra verð en Íslendingar. Meðalverð Norðmanna var í fyrra 387,6 kr/kg en 243,8 kr/kg var meðalverðið sem Íslendingar fengu.

13 milljarða kr lægra hráefnisverð

Á Íslandi voru um 100 þúsund tonn af makríl seld til vinnslu í fyrra og fengust fyrir það 4,8 milljarðar króna. Í Noregi voru 175 þúsund tonn seld til vinnslu fyrir 31,2 milljarða króna. Hefði útgerðin á Íslandi fengið sama verð fyrir makrílinn og greitt var í Noregi hefði aflaverðmætið ekki verið 4,8 milljarðar króna heldur 17.9 milljarðar króna. Munurinn er hvorki meira né minna en 13 milljarðar króna.

Ekki kemur fram í gögnum Verðlagsstofu skiptaverðs hvers vegna afurðaverð á Íslandi er svona miklu lægra og ekki heldur er að finna skýringar á því að Norðmenn fá mun hærra verð fyrir sínar afurðir en Íslendingar.

 

DEILA