Lögþvingun um sameiningu sveitarfélaga gengur gegn lýðræði

Grenivík við Eyjafjörð.

Sveitarstjórinn á Grenivík, Þröstur Friðfinnsson segir í bréfi til allra 39 sveitarfélaganna á landinu, sem eru með færri en 1000 íbúa, sem hann sendir fyrir hönd sveitarstjórnarinnar, að þau telji framkomna tillögu um lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga og 1000 íbúa lágmark, „ganga freklega gegn lýðræði og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga.“

Þröstur gagnrýnir harðlega framgang stjórnvalda og segir um samráðið:

„Mikið er látið yfir samráði á öllum stigum máls.  Í því sambandi teljum við að minni sveitarfélögum hafi verið haldið frá því samráði beint og óbeint, og þegar þau hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri, hefur verið lítið gert með það og jafnvel látið hverfa.  Þannig er í kynningu á samráðsgátt af samráðsferli Grænbókar og umsögnum, sem og í greinargerð með þingsályktunartillögunni, ekkert minnst á andstöðu eða efasemdir við lögþvingun, sem þó kemur fram í umsögnum með afgerandi hætti.  Þetta eru ámælisverð vinnubrögð og fullt tilefni til að mótmæla.“

Hann hvetur minni sveitarfélögin til þess að  standa saman og láta til sín taka. Bendir hann á að framundan er aukalandsþing sambands íslenskra sveitarfélaga og að þar eigi minni sveitarfélögin að  mótmæla „lögþvinguðum sameiningum, saman eða hvert í sínu lagi með bókunum.“

Stingur Þröstur upp á því að boða til fundar litlu sveitarfélaganna, ráða ráðum okkar og koma okkar sjónarmiðum beint á framfæri við fjölmiðla í tengslum við landsþing.

Þá vísar Þröstur í nýlega samþykkt sveitarstjórnar Skagastrandar  sem mótmælti harðelga öllum hugmyndum um lögþvingaða sameiningu sveitarfélaganna og hvetur ráðamenn þjóðarinnar til þess að virða hagsmuni íbúanna og sjálfsákvörðunarrétt í eigin málum.

Tillögurnar snerta nær öll sveitarfélög á Vestfjörðum og verður fróðlegt að fylgjast með  viðbrögðum sveitarstjórnanna.

Bæjarráð Bolungavíkur ályktaði á fundi sínum í gær gegn lögþvingaðri sameiningu:

„Bæjarráð Bolungarvíkur mótmælir harðlega öllum hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga á Íslandi og hvetur ráðamenn til þess að virða hagsmuni íbúa og sjálfsákvörðunarrétt í eigin málefnum. Sameining sveitarfélaga getur verið ákjósanleg og skynsamleg en slíkt verður að gerast á forsendum þeirra sem um ræðir.“

 

 

DEILA