Líflambahappdrætti á Sævangi

Líflambahappdrætti var haldið samhliða hrútaþuklinu í Sævangi í gær og á einn vinningshafi eftir að gefa sig fram. Aðeins er dregið úr seldum miðum og það er eigandi miðans nr. 492 sem hefur unnið hrút frá Bjarnveigu og Birni á Melum í Árneshreppi. Eigandi miðans er beðinn um að hafa samband við Sauðfjársetrið í s. 693-3474.

Þrír vinningar gengu út á staðnum, Bjarni Elíasson á Mýrum í Kaldrananeshreppi vann gimbur frá Haraldi á Stakkanesi á miða 562, Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir á Hólmavík vann gimbur frá Indriða á Skjaldfönn á miða 504 og Úlfar Sveinsson á Ingveldarstöðum í Skagafirði vann hrút frá Guðbjörgu og Kristján í Gautsdal á miða 493.

Tveir vinningar gengu til fólks sem hafði keypt miða í forsölu, en komst ekki sjálft á hrútaþuklið. Fjóla Runólfsdóttir í Þistilfirði vann gimbur frá Írisi og Unnsteini á Klúku á miða 272 og Elfar Stefánsson í Bolungarvík vann hrút frá Steinu og Reyni í Miðdalsgröf á miða 267.

DEILA