Laxeldi: vel sóttur fundur á Tálknafirði

Frá fundinum á Tálknafirði. Mynd: Gunnar Þórðarson.

Fjölmennt var á fundi Vestfjarðastofu og Matís á Tálknafirði um reynslu Troms fylkis í Noregi af laxeldi. Framsögumaður var Gunnar Davíðsson, deildarstjóri hja Troms fylkinu.

Nærri hundrað manns mættu í gær á tvo fundi um þetta efni á Ísafirði og á Tálknafirði. Greinilegt er að mikill áhugi er á Vestfjörðum á þessu efni.

Laxeldi í sjó er orðinn stór útflutningsatvinnuvegur í Noregi. Í erindi Gunnars kom fram að árleg framleiðsla er um 1,2 milljónir tonna. Til samanburður voru framleidd 19 þúsund tonn á Íslandi í fyrra, rétt liðlega 1% af framleiðslunni í Noregi. Útflutningstekjur Norðmanna af fiskeldinu voru um 70 milljarðar norskra króna í fyrra. Það gerir um 1000 milljarða íslenskra króna. Eldið gaf um 72% af útflutningstekjum sjávarútvegsins í Noregi því  en hefðbundnar fiskveiðar um 28%.

Athyglisvert er að útflutningstekjur af laxeldinu jukust um 10 miljarða norskra króna frá 2016 til 2018. Á aðeins tveimur árum er aukningin 10 milljarðar nok eða um 140 milljarðar íslenskra króna.

 

DEILA