Landsnet: sterk fjárhagsleg staða – tafir eru dýrar

Fjárhagsleg staða Landsnets er sterk samkvæmt árshlutareikningi fyrirtækisins fyrir fyrri hluta ársins 2019. Eignir eru færðar á 106 milljarða króna og skuldir voru 58 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall er 45%. Hagnaður af rekstri fyrri hluta ársins var 2,5 milljarður króna að teknu tilliti til fjármagnskostnaðar.

Landsnet á og rekur línur og önnur mannvirki vegna dreifingar á rafmagni um landið. Virkjanir geta óskað eftir því að tengjast landsnetinu sem gerir þeim kleift að selja raforkuna hvert sem er innanlands, en verða að greiða tengigjald sem á að standa straum af kostnaði við tenginguna og rekstur dreifikerfisins.

Vesturverk ehf hefur óskað eftir tengingu Hvalárvirkjunar við og er að hefjast samráðsvinna til þess að ákvarða staðsetningu á tengipunki í Ísafjarðardjúpi.

Sterk staða en töp í flutningum eru dýr

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets segir að fjárhagsleg staða fyrirtækisins sé sterk en tafir á fjárfestingum við dreifikerfið séu kostnaðarsamar og valdi óþarfa töpum á rafmagni við flutningana.

„Staða fyrirtækisins er sterk, eiginfjárstaða góð og við erum að fylgja eftir góðum árangri undanfarinna ára. Á fyrri hluta ársins eru fjárfestingar lægri en áætlað var, helsta ástæða þess er að stór verkefni fóru seinna af stað en við reiknuðum með vegna tafa á leyfisveitingum. Það er mjög mikilvægt að hraða málsmeðferðinni og gera leyfisveitingaferlið skilvirkara. Tafir eins og við höfum staðið frammi fyrir eru kostnaðarsamar ekki bara fyrir Landsnet heldur líka þá sem eru að nota orkuna. Eins og staðan er í dag tapast mikil orka í kerfinu, virkjanir nýtast ekki sem skyldi og neytendur hafa ekki tryggan aðgang að orku alls staðar á landinu. Þetta er ekki góð staða þegar við horfum til umhverfis- og samfélagslegra þarfa. Sem fyrirtæki er Landsnet vel í stakk búið til að takast á við þessar áskoranir.“

Fjórir eigendur

Landsnet er hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða og tók til starfa í ársbyrjun 2005. Fyrirtækið starfar samkvæmt sérleyfi og er háð eftirliti Orkustofnunar sem ákveður tekjumörk sem gjaldskrár byggja á.

Landsvirkjun 64,73%

RARIK 22,51%

Orkuveita Reykjavíkur 6,78%

Orkubú Vestfjarða 5,98%

DEILA