Landnámsskáli Hallvarðs Súganda

Fornminjafélag Súgandafjarðar hefur hafið byggingu landnámsskála í Botni í Súgandafirði á svæðinu innan við gamla réttarskálann. Skálinn er teiknaður af arkitektastofunni Argos en hún teiknaði einnig skálann á Eiríksstöðum og í Brattahlíð á Grænlandi. Um er að ræða tilgátuhús byggt á fornleifauppgreftri á Grélutóftum í Arnarfirði.

Verkefnið verður unnið í þremur hlutum. Í ár verða veggir skálans hlaðnir úr klömbru og grjótveggur hlaðinn í kringum skálann. Á næsta ári verður farið í að smíða grindina og loka húsinu. Þriðja árið verður hugað að innanstokksmunum og því sem tilheyrði þ.m.t. langeldinum, rúmum og öðru.

Elstu skálar landsins voru þannig úr garði gerðir að ekki var hlaðinn grunnur úr grjóti undir torfveggjunum líkt og sjá má á Eiríksstöðum heldur var torfhleðsla frá jarðvegi og upp. Í Botni verður hins vegar verður farið í jarðvegsskipti til að tryggja að frostið skemmi ekki hleðsluna.

Verkefnið hefur verið í vinnslu í næstum ár og margir komið að því. Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur, sem var einn þeirra sem vann að fornleifauppgreftrinum á Grélutóftum, hefur verið til ráðgjafar við verkefnið í samvinnu við arkitektana sem hafa þurft að finna útfærslu á hlutum eins og loftræstingu, hæð á veggjum, þaki, hurðum, anddyri o.fl. En Guðmundur hefur verið tengdur flestum þeim skálabyggingum sem hafa verið reistar á Íslandi.

Helga Guðný Kristjánsdóttir og Björn Birkisson í Botni leggja til torfið en eftir skoðun á torfi í Botnsdalnum var ljóst að gott torf er að finna þar. Það var mjög mikilvægt fyrir byggingu skála fyrr á öldum eins og nú að vera í nágrenni við mýrar því mikilvægasta byggingarefnið er mýrartorfið.

Námskeið í hleðslu

Í tengslum við byggingu skálans heldur Fornminjafélagið, í samstarfi við Kristínu Auði Kelddal Elíasdóttir hleðslumann og skrúðgarðyrkjumeistara úr Dýrafirði, námskeið í hleðslu í Súgandafirði dagana 6.- 8. ágúst. Kristín stjórnar verkinu og leiðbeinir um handbragðið við hleðsluna en hún er einn af reyndari hleðslumönnum landsins.

Á námskeiðinu er m.a. kennt hvernig á að velja mýri til að taka torf úr, hvernig á að stinga klömbru úr mýri, hvernig er hlaðið með klömbru, val á steinum í hleðslu og steinhleðslu með og án strengs.

Nánari upplýsingar veitir Eyþór Eðvarðsson, formaður Fornminjafélags Súgandafjarðar, s. 892 1987.

Mynd: Ingrid Kuhlman.

DEILA