Jón Þór Guðmundsson Íslandsmeistari í hrútadómum

Sautjánda Íslandsmeistaramótinu í hrútadómum á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum var haldið í gær. Það var frekar kalt í veðri en þurrt, og ljómandi skemmtilegur dagur. Að venju var fín mæting og mikið fjör segir á heimasíðu Sauðfjársetursins.

Fólk kom að venju víða að af landinu og var gleði og gaman. Dagurinn snýst ekki bara um keppnina í hrútaþuklinu, heldur eiga þeir sem mæta góðar stundir saman, spjalla og sitja að kræsingum á kaffihlaðborði, rifja upp gömul kynni og eignast nýja vini.

Sigurvegari í flokki vanra hrútadómara og þar með íslandsmeistari í hrútadómum 2019 er Jón Þór Guðmundsson á Galtarholti í Hvalfjarðarsveit. Í öðru sæti varð Strandamaðurinn Sigmundur Sigurðsson í Lyngási í Kollafirði og þriðji varð að þessu sinni Bjarni Hermannsson á Leiðólfsstöðum í Dölum.

Sigurvegari í flokki óvanra hrútaþuklara sem ekki nota stigakerfið sem þaulvanir bændur nota varð Dóróthea Sigvaldadóttir á Kárastaðalandi í Borgarnesi. Í öðru sæti varð Dagrún Ósk Jónsdóttir náttúrubarn á Kirkjubóli og í þriðja sæti voru Þórey Dögg Ragnarsdóttir á Heydalsá og Ólöf Katrín Reynisdóttir í Miðdalsgröf, þær þrjár síðastnefndu eru Strandakonur og Tungusveitungar.

DEILA