Ísafjörður: nýjar viðmiðunarreglur um leikskóla

Leikskólinn Sólborg.

Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar hefur lagt fram nýjar viðmiðunarreglur sem stuðla eiga að betra náms- og starfsumhverfi barna og starfsfólks í leikskólum Ísafjarðarbæjar.

Sérstakur starfshópur fræðslunefndar, foreldra, starfsmanna, skólastjórnenda og leiksskólakennara, sem starfaði á fyrri hluta ársins, skilaði af sér sex tillögum til að bæta starfsumhverfi í leikskólum.

  1. Barngildisviðmiðum leikskólalíkansins verði þannig að 2 ára börn verð 2 barngildi í stað þess að vera 1,6.
  2. Bæjaryfirvöld og Vestfjarðastofa hefji viðræður við háskólana um að fjarnám verði í boði hér fyrir vestan til að auðvelda aðgengi fólks að leikskólakennaranámi og að námsstyrkur verði veittur til að fjármagna ferðir nema í námslotur.
  3. Einungis verði talið til leikrýmis það rými sem börnin hafa að jafnaði aðgang að til leiks allan daginn og miðað sé við 3,5m2 leikrými á hvert barn, þó verði að taka tillit til yngri barna. Því er lagt til að horft sé til leiksrýmis barna frekar en heildarrýmis leikskólans.
  4. Kennarafundir fari fram í byrjun dags, kl. 8-10 einu sinni í mánuði, alls 10 fundir á ári. Einnig komi til lokunar 1-2 klst. hluta úr degi þá daga sem leikskólinn lokar fyrir sumarfrí og opnunardag eftir sumarlokun, þar sem ekki er hægt að ganga frá húsgögnum og námsgögnum á meðan börnin dvelja í leikskólanum. Aðrir lokunardagar verða 4 sem nýttir verða til skipulags á kennslu og námskeiða.
  5. Leikskólum verði heimilt að fara í vinnustyttingu til reynslu næstkomandi   haust sem samsvarar því að starfsmaður í 100% starfi fær 3 klukkustundir í styttingu á viku, þ.e. vinni í heild 37 klst. vinnuviku. Skoðað verður hvernig til tókst í lok skólaársins að vori 2020.
  6. sett verði 15 undirbúningstíma viðmið á hverja deild til skipuleggja starfið. Þannig skapast jafnræði milli deilda til undirbúnings á faglegu starfi.

Áhyggjur af löngum vistunartíma

Þá skoðaði starfshópurinn vistunartíma barnanna. Um það segir í skýrslu nefndarinnar:

„Langur dvalartími barna í leikskóla er orðin staðreynd og tölur sýna að vert er að hafa af því áhyggjur. Jafnvel er það staðreynd að oft eru börn farin að „vinna“ lengri vinnudag en foreldrar þeirra. Hinn íslenski veruleiki er sá að langflest börn á hvaða aldri sem er dvelja sjö tíma eða lengur í leikskólum. Eftirfarandi er dvalartími barna á leikskólunum Sólborg og Eyrarskjóli en þar eru um 90% barnanna í 8 klst. vistun eða meira á dag. Nánari sundurliðun er: í 4 klst eru 2 börn í 5 klst vistun eru 2 börn , 6 klst. vistun eru 3 börn, í  7-7.5 klst vistun eru 8 börn og í 8-9 klst. eru 158 börn.“

 

DEILA