Ísafjörður: 70 manns á Enduromótinu í fjallahjólreiðum

Fjallahjólamótið Enduro Ísafjörður var haldið á Ísafirði á laugardaginn. Tæplega 70 keppendur tóku þátt í mótinu ásamt um 10 sjálfboðaliðum. Hjólað var á Botns- og Breiðadalsheiði, á Seljalandsdal og niður í Múla. Mikil ánægja er með mótið og þóttu leiðirnar hér fyrir vestan fjölbreyttar og skemmtulegar. „Það var alla vega ekki annað að heyra en að þátttakendur hafi verið glaðir með þetta, það voru allir skælbrosandi og greinilegt að hjólarar voru að koma vestur til að hafa gaman“ segir Heiða Jónsdóttir ein skipuleggjenda og þátttakenda mótsins. Heiða segir engin slys hafa orðið á fólki, alla vega hafi ekki þurft að kalla til sjúkrabíl. „Hrufl og mar er eitthvað sem maður kemst ekki hjá á svona móti, ég t.d. datt tvisvar og er vel marin á lærinu. Held líka að flest hjól hafi komist klakklaust í gegnum daginn, þó einhver dekk hafi fengið að finna fyrir vestfirska grjótinu, sem einkennir brautirnar okkar“ bætir Heiða við. 

 

En hvers vegna ákveður Vestri að halda svo stórt mót á Ísafirði? „Svona mót gera svo gott fyrir hjólasamfélagið, þjappar hópnum enn betur saman, bæði á landsvísu og hér fyrir vestan. Við viljum að sem flestir komi og njóti hjólaleiðanna okkar. Viðbrögð þátttakenda gefa svo ágætis búst og staðfestingu á að við séum á réttri leið. Draumurinn er náttúrulega að Ísafjarðarbær verði fjallahjóla mekka enda er hér alveg endalaust af möguleikum. Það sem gerði útslagið var síðan lokahófið um kvöldið þar sem grillaður var þorskur af Júllanum borinn fram með grænmeti og tacco skeljum, endirinn á góðum degi hefði ekki getað verið betri“ segir Heiða að lokum.

 

Vestri hjólreiðar vilja koma á framfæri þakklæti styrktaraðila mótsins, þ.e. HG, Hótel Ísafirði, Vífilfelli,  Dokkunni, Púkanum, Ívafi, Edinborg Bistro og Gústa productions fyrir að bakka okkur upp. „Fólkinu í félaginu sem hefur lagt á sig ómælda vinnu í stígagerð, undirbúningi og mótshald og Lárusi og Arnaldi í Enduro Iceland, sem komu vestur og hjálpuðu  á lokametrunum til með brautarlagningu og úrvinnslu gagna, fá stórt knús.“

 

Úrslit úr Mótinu

 

Konur:

1 Gunnhildur Ingibjörg Georsdóttir 0:35:40

2 Heiða Jónsdóttir 0:38:13

3 Þórdís Björk Georgsdóttir 0:38:23

4 Manuela Magnúsdóttir 0:39:10

5 Heiðrún Erla Guðbjörnsdóttir 0:39:56

 

Karlar:

1 Helgi Berg Friðþjófsson 0:26:36

2 Bjarki Sigurðsson 0:27:09

3 Jónas Stefansson 0:27:12

4 Halldór Einarsson 0:28:07

5 Franz Friðriksson 0:28:14

Viðar fer með keppnisræðuna, Glittir í Kristján Jónsson og Óliver Hilmarsson.

verðlaunahafar í karla og kvennaflokki.

Ólafur Stefánsson gullsmiður fer yfir Tunguánna.

 

 

 

DEILA