Íbúasamtökin Átak í Dýrafirði hafa sent bæjarráði Ísafjarðarbæjar erindi um sorpflokkun. Vilja þau fá upplýsingar um ferlið eftir að sorpið hefur verið sótt til heimilanna.
Í bréfinu segir:
„Vegna orðróms sem oft kemur upp um að flokkað sorp sé í sumum tilfellum sameinað eftir að það er sótt úr tunnum, óska samtökin eftir upplýsingum um það ferli sem á sér stað eftir að sorp er sótt frá heimilum, hvaða aðilar koma við sögu og hvort flokkað sorp sé nokkurstaðar í því ferli sameinað.“
Vonast þau til þess að svörin kveði niður orðróminn endanlega. Einnig óska samtökin eftir því að það verði athugað með hvaða hætti sorpflokkun á sér stað hjá stofnunum bæjarins á svæðinu, s.s. dvalarheimili, höfn o.s.frv. þannig að staðfest sé að sveitarfélagið sýni íbúum gott fordæmi.
Sigmundur Þórðarson, stjórnarmaður í samtökunum sagði í samtali við Bæjarins besta að sorpið væri flokkað hjá Grunnskólanum en hins vegar ekki hjá heilbrigðisstofnuninni. Eins væri sorp á tjaldsvæðinu óflokkað. Hann lagði áherslu á að vilji íbúanna væri sá að sem best væri staðið að þessum málum. Einn þáttur í því ferli væri að flokkunin væri viðhöfð alla leið til urðunar eða annarrar förgunar.