Hvalárvirkjun: Styðjum réttkjörna fulltrúa hreppsins

Menningarminjar í Ingólfsfirði.

Gísli Baldur Jónsson og systkini hans tvö eiga 50% af jörðinni Seljanes í Árneshreppi. Gísli segir í samtali við Bæjarins besta að hann og skyldmenni hans styðji öll þær framkvæmdir á Ófeigsfjarðarveginum sem verið er að gera nú í sumar. „Öll vegagerðin er framför og við virðum vilja réttkjörinna fulltrúa hreppsins og styðjum þá“ segir Gísli. Hann segir stuðninginn einnig ná til þess að styðja Hvalárvirkjun.

Samkvæmt upplýsingum frá Sýslumannsembættinu á Vestfjörðum  skiptast hin 50% eignarhaldsins á Seljanesi að jöfnu á tvo staði, annars vegar milli 14 barna Kristins Jónssonar og Önnu Guðjónsdóttur, sem bjuggu á Dröngum og Seljanesi  þannig að hver þeirra er skráður fyrir 1,7857%. Samtals er sá hlutur 25%. Hins vegar eru 25% þinglýst á Jón Guðmundsson samkvæmt afsali frá 1929 þegar hann kaupir hlut Önnu Þorkelsdóttur. Nánar er eignarhaldi á þeim hlut ekki  lýst. Jón Guðmundsson átti 7 börn og var Kristinn Jónsson, Dröngum eitt þeirra. Ef þessi hlutur skiptist jafnt milli afkomenda Jóns þá á hvert barn eða afkomendur þess 3,57% hlut í jörðinni.

Tvöfalt fleiri með en á móti

Eignarhlutur þeirra eigenda sem hafa haft sig í frammi á móti vegagerð í Ingólfsfirði og í Ófeigsfirði og virkjun Hvalár er þá í mesta lagi 28,57%, en er örugglega eitthvað minni þar sem einn afkomandinn er í hreppsnefnd Árneshrepps og stuðningsmaður framkvæmdanna. Hlutur þeirra sem styðja bæði vegagerðina og virkjuna er að minnsta kosti 50%, sem er nánast tvöfalt meiri en hlutur þeirra sem eru á móti. Ekki er vitað um afstöðu 21,43%.

Hvor hópurinn ræður ?

Spurningin sem vaknar er hvor hópurinn ræður þegar eigendur eru ekki sammála. Lög eru fátækleg þegar kemur að þessu varðandi óskipta eign í sameign margra. Stuðst er samkvæmt upplýsingum, sem Bæjarins besta hefur aflað sér frá lögfræðingum, við óskráðar reglur og þar er meginreglan að samþykki allra landeigenda þurfi fyrir breytingum. Til dæmis þurfa allir að samþykkja að reist verði nýtt sumarhús á jörðinni. Spurning hvort ekki hafi þurft samþykki allra eigenda fyrir stóru tjaldi  á Seljanesi sem reist hefur með töluverðri undirstöðu.  Ef gera á nýjan veg myndi það sama gilda en þar hefur Vegagerðin að vísu lagaákvæði sem hægt er að grípa til um eignarnám ef ekki nást ásættanlegir samningar. Af þeirri ástæðu hafa kærendur lagt áherslu á að véfengja réttarstöðu Vegagerðarinnar því þeir vilja koma málinu í þann farveg að aðeins einn þurfi til að stöðva framkvæmdir.

Vegurinn er virkjunarvegur

Lagfæringar á núverandi vegi eru ekki nýr vegur að mati Vegagerðarinnar og Vesturverks ehf svo þá þarf ekkert leyfi. Þar getur vissulega orðið meiningarmunur um eðli lagfæringanna og verður væntanlega tekist á um það. En þá þarf líka að hafa í huga að vegurinn var upphaflega gerður vegna athugunar á virkjun Hvalár um 1970. Íbúar þá sóttust eftir veginum og virkjunaráform voru ekki frágangssök.
Það sem er sérkennilegt er að leggjast gegn vegarbótum af þeirri ástæðu að þá verður hægt að flytja eftir vegum tæki til virkjunarrannsókna. Með öðrum orðum veginn má ekki nota til ákveðinna flutninga. Með þessum rökum hefðu virkjunarandstæðingar lagst gegn hafnarbótum ef það hefði orðið ofan á að flytja sjóleiðina vélar og tæki til virkjunarrannsókna og framkvæmda. Það væri þá hægt að vera á móti Dýrafjarðargöngum af því að það gæti auðveldað virkjunarframkvæmdir eða að vera á móti bættum flugbrautum á Keflavíkurflugvelli af því að herþotur gætu notað brautina séu menn andvígir erlendum her í landinu. Þessi málatilbúnaður ber feigðina eina í sér og grundvallast á kröfu fámennra hópa sem vilja kúga aðra undir sinn vilja.
-k
DEILA