Hvalárvikjun: Kært til Héraðsdóms Reykjavíkur

Engjanes. Mynd: Mats Wibe Lund.

Fulltrúar 70,5% eignarhalds á jörðinni Drangavík hafa ákveðið að stefna Vesturverki og Árneshreppi fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Krafa eigendanna er að leyfi Vesturverks fyrir framkvæmdum á Ófeigsfjarðarheiði vegna Hvalárvirkjunar verði ógilt og deiliskipulag hreppsins einnig. Héraðsdómurinn hefur fallist á flýtimeðferð á málinu og verður það þingfest nú í vikunni, væntanlega á föstudaginn.

Í fréttatilkynningu frá kærendum , sem undirrituð er af Láru Ingólfsdóttur, segir að vonir standi til þess að málsmeðferð geti lokið á mjög stuttum tíma.

Fram kemur að  kærendur hafi kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í júní og krafimst stöðvunar framkvæmdanna, en að úrskurðarnefndin hafi ekki fallist ekki á að stöðva framkvæmdir á meðan hún fjallaði um málið. „Við þessar aðstæður teljum við eðlilegast að dómstólar fjalli um ágreiningsatriði málsins, í stað þess að bíða úrskurðar nefndarinnar. Fórum við fram á flýtimeðferð enda þoli málið ekki bið og var við henni orðið.“

Samkvæmt þessu er ljóst að þessir eigendur Drangavíkur fara með kæruna frá úrskurðarnefndinni til héraðsdóms og þá verður henni væntanlega vísað frá nefndinni.

Dómshöfðunin er rökstudd svo samkvæmt tilkynningunni:

„Við teljum svo alvarlega galla á efni og málsmeðferð aðalskipulags, aðalskipulagsbreytingar, deiliskipulags og öllum undirbúningi framkvæmdaleyfis vegna fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar að ógilda eigi leyfið og deiliskipulagið. Byggjum við kröfur okkar í dómsmálinu að mestu á sömu rökum og við byggðum kæru okkar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í júní síðastliðnum.“

Kærendur hafa gert ágreining um landamerki jarðanna Drangavík og Engjanes og telja sig eiga stóran hluta þess lands sem samkvæmt opinberum gögnum tilheyrir Engjanesi. Í krafti þess telja þeir sig eiga kærurétt í málinu. Í tilkynningunni segir að reka þurfi sérstakt landamerkjamál um þetta ágreiningsatriði.

 

DEILA