Hrafnaþing á Höfðaodda í Mýrahreppi: Ekkert bull eða stjórnlaust kjaftæði eins og í Austurvallarleikhúsinu!

Tveir hrafnar á þingi. (Vísindavefurinn)

Frá því er að segja að snillingurinn Þórarinn Sighvatsson, bóndi á Höfða í Mýrahreppi í Dýrafirði, skildi hrafnamál líkt og sumir spekingar. Þórarinn svaraði þegar hann var inntur eftir því á sínum tíma: „Ég skal nú ekkert um það segja. En oft koma þeir og segja mér fréttir, jafnvel úr Önundarfirði og víðar að. Og mannslát hafa þeir stundum sagt mér.“

Þann 28. ágúst, sama dag og Austurvallarleikhúsið hóf aftur sýningar á leikritinu Orkupakki 3, bar svo til að haldið var Hrafnaþing á Höfðaodda þar sem Þórarinn bóndi gekk áður um garða. Var það fjölsótt samkoma og komu hrafnar víða að. Þegar þau Mýrahjón, Valdimar og Edda, voru á leið til laugar á Þingeyri um morguninn, urðu þau vitni að þessum atburði, en sagt er að Hrafnaþing hefjist yfirleitt um kl. 4 að morgni dags.

Valdimar liggur undir grun um að skilja talsvert í máli hrafna, enda haft mikið saman við þá að sælda í æðarvarpinu á Mýrum í gegnum tíðina. Menn segja þó að hann komist ekki í hálfkvisti við sveitunga sinn, Þórarinn heitinn á Höfða, í þeim efnum.

Menn hér vestra telja ljóst, að á Oddaþinginu hafi Orkupakkamálið verið til umræðu. Haft er eftir þeim Mýrahjónum að ekkert málþóf eða málæði hafi verið heyranlegt á þessu Hrafnaþingi. Þvert á móti hafi umræður bæði verið vel undirbúnar og krunkið farið skipulega fram. Bull og stjórnlaust kjaftæði ekki á dagskrá. Athugasemdir við fundarstjórn forseta og andsvör og andsvör við þeim er víst ekki látið viðgangast á Hrafnaþingum. Svo segja vitrir menn sem eru margir hér um slóðir.

H. S.

DEILA