Höfðingleg gjöf.

Erindi Úlfars Thoroddsen um Einar B. Bjarnason frá Hreggstöðum, sem stofnaði styrktarsjóð heilbrigðisstofnana í Vestur Barðastrandarsýslu.

Úlfar Thoroddsen.

Nú á árinu 2019 hafa verið notaðir þeir fjármuni sem eftir stóðu í Styrktarsjóði heilbrigðisstofnana í Vestur-Barðastrandarsýslu til tækjakaupa í þágu samfélagsins á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar með lýkur hlutverki sjóðsins og hann lagður niður. Sjóðurinn var stofnaður árið 1993 um arf frá einstaklingi til Sjúkrahúss Patreksfjarðar. Tilkynnt var um væntanlegan arf á árinu 1983 og byrjað að nýta hann í framhaldi af því. Hver sýndi slíkan hlýhug og þvílíka rausn? Það var Einar Bjarni Bjarnason fæddur 18. september árið 1899 á Hreggstöðum á Barðaströnd. Foreldrar hans voru Bjarni Jónsson bóndi og Jónfríður Helgadóttir húsfreyja þar á bæ.

 

Einar ólst upp í foreldrahúsum. Hann var einn fjögurra barna þeirra hjóna. Síðar varð hann bóndi á Hreggstöðum ásamt Jóni Valdemari bróður sínum allt til ársins 1957. Þá lögðu þeir bræður niður búskap og fluttu í þorpið á Patreksfirði og leigðu herbergi meðan þeir bjuggu saman, fyrst í Árbæ. Þeir unnu verkamannavinnu meðan kraftar entust og lengst hjá Hraðfrystihúsi Patreksfjarðar h.f. Jón Valdemar endaði ævi sína á Sjúkrahúsinu á Patreksfirði og dó þar eins og systkini hans Kristjana og Björn. Einar lifði systkini sín. Hann var ókvæntur og barnlaus. Árið 1963 kaupir hann neðri hæð íbúðarhússins að Aðalstræti 90 á Patreksfirði og bjó þar meðan heilsan leyfði. Endaði hann ævi sína á sjúkrahúsinu og andaðist þar 3. desember 1984. Einar hafði gengið þannig frá fjármálum sínum á árinu 1983, að hann arfleiddi sjúkrahúsið að öllum eignum sínum. Verðmætin reyndust furðu mikil miðað við aðstæður þessa einstaklings. Hann hafði verið bóndi og síðar verkamaður alla starfsævina. Afrakstur slíkra starfa hefur almennt ekki verið mikill. Það sem stóð eftir hverju sinni var vel varðveitt og viðhöfð fyllsta aðgæsla.

 

Eftirfarandi frétt birtist í Morgunblaðinu 16. ágúst 1985: Stórgjafir til sjúkrahússins á Patreksfirði

Stjórn sjúkrahússins á Patreksfirði bauð nýlega til kaffisamsætis og sýningar á tækjum sem sjúkrahúsinu hafa borist að undanförnu. Eftirfarandi tæki voru sýnd: Sónartæki sem Kvenfélagið Sif á Patreksfirði beitti sér fyrir söfnun peninga til kaupa á með stuðningi frá öllum kvenfélögum í nágrannasveitarfélögunum og fleiri félögum í sýslunni. Magaspeglunartæki sem Lionsklúbbar Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Bíldudals gáfu. Þá var sýnt nýtt og fullkomið skurðborð, heyrnarrannsóknartæki, baðlyfta, sjúkrarúm og margt fleira sem keypt var fyrir fé sem sjúkrahúsið erfði síðastliðinn vetur. Jósep Blöndal yfirlæknir lýsti tækjunum og notkun þeirra og þakkaði gefendunum þann góða hug sem í gjöfunum fælist. Í kaffisamsætinu gerði Stefán Skarphéðinsson sýslumaður grein fyrir erfðaskrá Einars Bjarnasonar frá Hreggstöðum á Barðaströnd. Þar kemur fram að Sjúkrahúsið á Patreksfirði er erfingi að öllum hans reitum. Arfur upp á miljónir króna. Að ósk hins látna verður eignum varið til tækjakaupa fyrir sjúkrahúsið. Auk þeirra tækja sem þegar hefur verið getið er áætlað að kaupa tæki fyrir endurhæfingardeild en vonir eru bundnar við að geti tekið til starfa næsta sumar. Einnig stendur til að kaupa tæki fyrir rannsóknarstofu en auk þess eru ný tæki væntanleg fyrir skurðstofu.

 

Það er fátt sem fest hefur verið á blöð um ævi Einars, þessa mæta manns. Hann var minnisstæður sveitungum sínum og naut virðingar þeirra. Saman dregið segja nokkrir hinna fáu sem enn lifa og muna Einar, að hann hafi verið vel látinn og traustur í samskiftum, fróður og góður sögumaður og hinn skemmtilegasti á að hlíða. Eins og Marta Þórðardóttir (100 ára 1. maí 2018) frá Fit á Barðaströnd og síðar á Hreggstöðum orðaði það: „Einar var svo indæll og áreiðanlegur“. Laufey Böðvarsdóttir frá Tungumúla og frænka Einars hefur þetta að segja um hann og systkini hans:

Hreggstaðabræður, Einar og Jón, oftast nefndir svo einu nafni þeir bjuggu á Hreggstöðum ásamt Kristjönu og Birni systkinum sínum eftir foreldra sína Bjarna og Jónfríði. Þetta voru hörkuduglegir en hæglátir menn sem ekki fór mikið fyrir. Á Hreggstöðum var aðallega sauðfjárbúskapur. Þar var líka góð selveiði á vorin. Heimilið var talið efnaheimili. Þar var ekki eytt í neinn óþarfa. Til dæmis sagðist Jón: „alltaf hátta ég í myrkrinu til að spara olíuna“.

 

Þegar ég var að alast upp á Barðaströnd hitti ég þessa bræður einu sinni á ári. Það var þegar þeir ráku í slátrun. Jón var alltaf ríðandi, en Einar gangandi. Þeir gistu á Innri-Múla hjá afa mínum (Þórði Ólafssyni) og ömmu (Steinunni Björgu Júlíusdóttur) sem var frænka þeirra. Ég sóttist eftir að vera þar þá og hlusta á sögurnar þeirra. Jón endaði alltaf á ættartölu sinni sem lauk á Ragnari Loðbrók Danakonungi. Einar kunni líka að segja vel frá, en lét Jóni oftast eftir sviðsljósið. Einar annaðist alla matseld. Ég kom þar eitt sinn og fékk heitar rúgkökur sem bakaðar voru úti í skemmu. Einar lifði systkini sín. Það er mitt álit að það, sem hann lét eftir sig, hafi verið auður þeirra allra. Jón var talinn fyrir Hreggstaðabúinu sem var þeirra sameign.

Laufey Böðvarsdóttir.

 

Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Patreksfirði sem nú er hluti Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefur haft aðgang að þeim fjármunum sem fyrr greinir allt frá árinu 1984. Hefur þeim verið varið til ýmissa tækja á heilsugæslu og sjúkradeild. Tæki og búnaður hefði verið í mörgu fátæklegri á stofnuninni, ef ekki notið hinnar höfðinglegu gjafar Einars og annarra framlaga frá velviljuðum einstaklingum og félögum í heilbrigðisumdæminu eða fyrrum Vestur- Barðastrandarsýslu. Samanlögð upphæð framlaga og tækja frá öllum þessum aðilum hleypur á háum upphæðum eftir því hvernig er metið og hvar upphafsárið er markað. Allt þetta hefur orðið til að bæta og efla sjúkra- og heilbrigðisþjónustuna.

 

Í anda Einars lögðu nokkur félög á Patreksfirði saman á liðnu ári (2018) og færðu Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði tæki sem kostuðu um kr. 2.200.000. Þessi félög voru Kvenfélagið Sif, Slysavarnadeildin Unnur, Krúttmagar skemmtifélag kvenna og Lionsklúbbur Patreksfjarðar. Síðan styrkti Lionsklúbburinn (í janúar 2019) stofnunina um kr. 475.000 til kaupa á tölvuskjá til notkunar í tengslum við sjúkraflutningana. Þá hafa Kvenfélagið Sif og Slysavarnadeildin Unnur lagt fram um kr. 2.500.000 á árinu 2019 inn í kaup á þeim tækjum sem nú er veitt móttaka.

 

Ýmsum finnist heilbrigðisstofnunin vera vanbúin tækjum og á eftir í þeim efnum. Staðan væri mun verri, ef ekki hefði notið velvildar heima fyrir. Stjórnvöld hafa lengst af skammtað naumt til heilbrigðismála og sérstaklega til tækjakaupa. Líkja má afstöðunni til útgerðar fjórróins báts fyrr á tímum sem hrundið hefði verið úr vör með aðeins þremur árum og áhöfn í samræmi við það. Nú er svo komið að alþingismenn hafa afar fátt um fjárveitingar að segja annað en að samþykkja heildarframlög í hvern málaflokk Fjárlaga hverju sinni. Það er sífellt verið að fjarlægja tengslin milli ríkisstofnana og kjörinna fulltrúa eða alþingismanna og sveitarstjórna. Þar með er dregið úr áhrifum þeirra á að hafa áhrif á gang mála og áhuga þeirra á að fylgjast með. Því miður. Útdeilingin er nú í höndum viðkomandi ráðherra og háð mati hans á þörfunum í hverju tilviki. Það er afturför.

 

Eins og framan hefur verið nefnt, hafa einstaklingar og félög hér um slóðir stutt dyggilega við sjúkra- og heilsugæsluþjónustuna. Það mun vonandi verða þannig á komandi tímum. Það styrkir tengslin, enda er sú þjónusta ein meginstoð farsællra lífsskilyrða hér á sunnanverðum Vestfjörðum og um landið allt.

 

Einar Bjarni Bjarnason frá Hreggstöðum lagði sannanlega sitt af mörkum í þágu þeirra sem þess þurfa við. Samfélagið hér á sunnanverðum Vestfjörðum á honum mikið að þakka.

 

Patreksfirði 12. ágúst 2019.

Úlfar B Thoroddsen

 

DEILA