Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm Framsóknarflokksins hefur óskað eftir fundi í Atvinnuveganefnd Alþingis þar sem ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvöru leggi fram þau gögn sem leiddu til þeirrar tillögu nefndarinnar til landbúnaðarráðherra að heimilaður verði innflutningur á lambahryggjum og nýr tollkvóti verði gefinn á lækkuðum tollum til að bregðast við meintum skorti á lambahryggjum. Tillaga nefndarinnar er að magntollur sé 172 kr/kg og án takmarka í magni.
Halla Signý sagði í samtali við Bæjarins besta að ákvæði búvörulaganna um heimild til innflutnings byggðu á forsendum sem hún efast um að séu uppfyllt. Í lögunum segir að ráðherra skuli úthluta tollkvótum þegar „framboð á viðkomandi vöru er ekki nægjanlegt á innanlandsmarkaði eða sýnt þykir að það verði ekki nægjanlegt á næstu þremur mánuðum.“ Halls Signý Kristjánsdóttir bendir á að slátrum hefjist eftir þrjár vikur og verði komin á fullt eftir fjórar vikur og því sem það tímabil styttra en þrír mánuðir þar sem skortur gæti verið á lambahryggjum. Þá bendir hún á að það magn sem sé á leiðinni til landsins sé um 55 tonn sem jafngildi nærri 37 þúsund hryggjum og það magn sé langt umfram eftirspurn og geti haft slæm áhrif á markaðinn fyrir innlendu afurðastöðvarnar.
Þórólfur Matthíasson, prófessor sat í verðlagsnefnd búvöru um tíma og hefur kynnt sér búvörusamningana segir að Ráðgjafarnefndin geti kallað eftir upplýsingum um birgðastöðu og það ætti að vera hægt að hafa nákvæmar upplýsingar um það sem til er í landinu. Hann segir að tölulegar upplýsingar hafi ekki verið í góðu lagi.
Ekki hefur komið fram hvert verðið er sem fékkst fyrir útfluttu hryggina, en viðmælendur Bæjarins besta segja líklegt að það hafi verið undir framleiðslukostnaðarverði, að minnsta kosti lægra en verðið innanlands er og hætt sé við því að afurðastöðvarnar hækki verðið innanlands til þess að mæta tekjutapinu.