Líftæknifyrirtækið Kerecis var með opin hús í dag á Ísafirði og kynnti starfsemi sína. Fyrirtækið er með aðstöðu bæði í Norðurtangahúsinu og húsi Íshúsfélags Ísfirðinga. Margir lögðu leið sína á báða staðina og kynntu sér starfsemina.
BMX brós heimsóttu Kerecis og buðu uppá námskeið í hjólamennsku auk þess að sýna listir sínar. Boðað var upp á veitingar.
Kerecis er frumkvöðull í notkun á roði og fjölómettuðum fitusýrum til að meðhöndla sár og vefjaskaða og eru vörur fyrirtækisins sem framleiddar eru á Ísafirði seldar víða um heim. Fyrirtækið hefur starfsemi líka í Reykjavík og í Arlington í Bandaríkjunum og eru starfsmenn orðnir um eitt hundrað. Á Ísafirði eru um 25 starfsmenn, einkum við framleiðslu, og hefur þeim fjölgað töluvert á árinu.