Fiskeldi og sportveiði

Mikið hefur verið rætt um fiskeldi og sportveiði að undanförnu. Oft er þessu tvennu stillt upp sem andstæðum en í raun eiga þessar greinar margt sameiginlegt og hafa möguleika til að vaxa með góðri samvinnu.

 

Hvergi í heiminum eru stundaðar jafn miklar sleppingar á seiðum Atlantshafslax í þeim tilgangi að efla laxveiði í ám eins og á Íslandi. Slíkar aðferðir eru í raun nátengdar fiskeldi enda eru seiðin alin í eldisstöðvum. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES) eru villtir laxastofnar skilgreindir sem „stofnar sem viðhalda sér sjálfir með engum eða afar takmörkuðum sleppingum seiða úr eldi“. Það er því spurning hvort umfangsmiklar sleppingar breyti flokkun viðkomandi laxastofna í íslenskum ám?

Hvernig fer val á villtum lax fram fyrir frjóvgun og ræktun í eldisstöðvum? Þegar villtur fiskur er tekinn til frjóvgunar er valinn mjög lítill hluti stofnsins. Eins og gefur að skilja hefur slíkt val, sem oft er byggt á stærð fisksins, áhrif á genasamsetningu stofns í viðkomandi laxveiðiá.

Sjálfur er ég hvorki á móti seiða- né hrognasleppingum í laxveiðiár og þá sérstaklega á svæðum þar sem erfitt eða ómögulegt er fyrir villta laxastofna að dafna. En það gefur auga leið að slíkar sleppingaaðgerðir, jafnt sem framkvæmdir á borð við stíflugerðir og laxastiga og jafnvel sportveiði, ættu varla að flokkast undir „náttúruvernd“ ólíkt því sem haldið hefur verið á lofti í fjölmiðlum og af hálfu sumra af samtökum veiðiréttahafa undanfarið.

Einnig hefur komið fram að Hafrannsóknarstofnun hyggist nú taka við fjárframlögum frá auðkýfingnum, Jim Ratcliffe. Vonandi verða þau framlög til þess að hjálpa stofnuninni að sinna af hlutleysi lögbundnu eftirlitshlutverki sínu varðandi málefni laxeldis.

Ég undrast hins vegar þögn aðila eins og Náttúruverndarsamtaka Íslands um þessa hluti. Þess má geta að þau hafa ekki þegið boð okkar um viðræður eða um að koma í heimsókn til að kynna sér fiskeldi á Vestfjörðum. Samtökin hafa af einhverjum ástæðum skipað sér í flokk með veiðiréttahöfum þrátt fyrir þau inngrip sem þeir standa fyrir og rakin voru hér.

Getur verið að þessar fyrirhuguðu stórframkvæmdir í uppbyggingu sportveiði verði að veruleika án umhverfismats og án athugasemda af hálfu náttúruverndarsamtaka hér á landi?

 

Sigurður Pétursson, fiskeldisbóndi hjá Arctic Fish á Vestfjörðum

DEILA