Farþegaflugið skilar 14% af útflutningstekjum

Farþega- og fraktflutningar íslensku flugfélaganna er stór þáttur í útflutningstekjum landsmanna. Þetta kemur fram í drögum að Grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi sem hefur verið lögð fram I samráðsgátt stjórnvalda.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi Grænbókina á fundi sínum á mánudaginn og mun skila inn umsögn sinni.

Á síðasta ári skilaði þessi þáttur 189 milljörðum króna  eða 14% af heildarútflutningi.

Sé litið til heildaráhrifanna á efnahagsstarfsemina innanlands , það er beinna, óbeinna og afleiddra áhrifa þá leggur flugrekstur í heild sinni 349.388 milljón krónur til hagkerfisins. Umsvif flugrekstrar nema því 13,4% af landsframleiðslu ef miðað er við árið 2017.

Sex árum fyrr, 2011, er talið að flugreksturinn hafi staðið undir 6,6% af landsframleiðslunni, þ.e. verið aðeins helmingur þess sem var 2017. Aukningin hefur verið mjög mikil eins og sést líka á tölum um aukinn fjölda erlendra ferðamanna á þessu tímabili.

DEILA