Bolungavík: Skrifað undir samning um stálþil

Skrifað var undir samning í gær um endurbyggingu stálþils við Brjótinn í Bolungarvíkurhöfn.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, og Stefán Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ísar ehf., skrifuðu undir samninginn í Ráðhússsal Ráðhúss Bolungarvíkur.

Hafnarsjóður Bolungarvíkur óskaði eftir tilboðum í maí og voru fimm tilboð opnuð þann 12. júní 2019 og af þeim var tilboð Ísar ehf. lægst.

Verktakinn áætlar að hefja framkvæmdir strax í næstu viku með efnisflutningum og niðurrekstur stálþils mun hefjast í lok ágúst. Enginn starfsemi verður á fremsta hluta Brjótsins meðan á framkvæmdum stendur.

Verklok eru áætluð 1. nóvember 2019.

Helstu verkþættir eru:

  • Prufurekstur, sprengd eða rippuð rás fyrir þil ef þörf reynist á.
  • Rekstur 78 stálþilsplatna, steypa akkerisplötur, uppsetning staga og festinga og fylling innan við þil.
  • Taka upp fríholt, brjóta og fjarlægja kant með pollum og festihringjum alls um 97 m.
  • Brjóta og fjarlægja steypta þekju.
  • Aftengja og taka upp raf-, og vatnslagnir.
  • Leggja vatnslagnir í bryggjuna og ídráttarrör fyrir rafstrengi
  • Steypa kantbita með pollum, uppsetningu á stigum og fríholtum.
  • Fylla í skarð milli gamla stálþils og grjótgarðs norðaustan við stálþilið.
  • Taka upp núverandi grjótvörn og endurraða grjótvörn utan á nýja fyllinguna.
DEILA