Árneshreppur: skoða frumvarp frá 1956 um sölu á Engjanesi

Engjanes. Mynd: Mats Wibe Lund.

Hreppsnefnd Árneshrepps ræddi sérstaklega á síðasta fundi sínum lagafrumvarp frá 1956 þar sem Alþingi veitti heimild til þess að selja jörðina Engjanes. Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti sagði í samtali við Bæjarins besta að athygli hreppsnefndar beindist að greinargerð sem fylgdi með frumvarpinu. Þar er landamerkjum  lýst á þann hátt hornmark milli Engjaness og Drangavíkur er í Þrælskleif, þaðan beint til fjalls og svo eftir hæstu fjallsbrún að Eyvindarfjarðará sem ráði merkjum milli Engjaness og Ófeigsfjarðar.

Þetta segir Eva að sýni að Engjanes eigi land til jökuls þar sem Eyvindarfjarðaráin byrji ekki í Eyvindarfjarðarvatninu heldur renni áin í vatnið og svo áfram úr því til sjávar. Áin eigi rætur sínar miklu ofar og komi þá líklega undan Drangajökli.

Frumvarpið frá 1956 var þingmannafrumvarp, flutt af Hermanni Jónassyni. Það varð að lögum og jörðin var seld Guðjóni Guðmundssyni hreppsstjóra á Eyri í Ingólfsfirði.

Svo sem fram hefur komið gera 10 eigendur að Drangavík þá kröfu að mörkin milli Drangavíkur og Engjaness séu þannig að Drangavík tilheyri land að Eyvindarfjarðarvatni og þaðan til fjalls eða mun stærra en talið hefur verið af hálfu opinberra aðila.

Þetta skiptir máli fyrir væntanlega Hvalárvirkjun. Samið hefur verið við landeigendur Ófeigsfjarðar og Engjaness um leyfi fyrir framkvæmdum og afnotum af vatnsréttindum, en ef krafa Drangavíkureigendanna nær fram að ganga verður málið flóknara vegna nýrra landeigenda, sem hafa lýst því yfir að þeir vilji ekki virkjunina.

DEILA