Vestri : vann Stórhöfðabikarinn og prúðasta liðið

Liðsmenn beggja liða stilla sér upp í myndatöku milli leikja.

Vestri fór með 2 lið á Orkumótið í Vestmannaeyjum í lok júní. Leikar voru hnífjafnir og gekk á ýmsu. Þó endaði það svo, að annað liðið vann sinn riðil með glæsibrag og hlaut þar með Stórhöfðabikarinn í verðlaun. Brekkan var brattari hjá hinu liðinu en allir stóðu sig frábærlega og voru sér og sínum til mikils sóma. Varð líka úr að Vestri fékk sérstakan bikar fyrir að tefla fram prúðasta liði mótsins að mati mótshaldara.

Orkumótið, áður Shellmótið í Eyjum, er stærsta fótboltamót sem haldið er hér á landi fyrir drengi 11-12 ára. Það er löngu búið að festa sig í sessi sem slíkt, enda verið haldið slitulaust frá 1984, og hafa flestir bestu knattspyrnumenn okkar stigið sín fyrstu keppnisskref á mótinu. Það er enda gífurlega fjölmennt, en í ár voru rúmlega 100 lið skráð til leiks en algengt er að 7-8 leikmenn séu í hverju liði. Það má því segja að strákarnir hafi fengið alvöru leiki þessa keppnishelgi.

DEILA