Vestri tapaði: vorum með þetta i hendi okkar

Knattspyrnulið Vestra í 2. deild karla fór illa að ráði sínu á laugardaginn þegar liðið fékk skell á móti neðsta liði deildarinnar Tindastól á Sauðárkróki. Leikar fóru 2:1 fyrir heimamenn. Vestri komst yfir  á 15. mínútu leiksins þegar Aaron Robert Spear skoraði gott mark. En Tindastóll jafnaði skömmu seinna á 23. mín og komust yfri á 50. mín. Vestri missti Hammed Obafemi Lawal út af með rautt spjald á 65. mín.

Bjarni Jóhannsson, þjálfari var daufur í dálkinn þegar Bæjarins besta heyrði í honum. „Við vorum með þetta í hendi okkar, en létum æsa okkur upp og misstum mann úr af með rautt spjald. Við urðum bara undir í baráttunni“ sagði Bjarni.

En „við erum á ágætum stað í deildinni og stefnum að því aðfara upp“ sagði Bjarni Jóhannsson.

Lokið er 11 leikjum af 22 og er lið Vestra í 3. sæti með 18 stig.  Leiknir Fáskrúðsfirði er efst með 22 stig og Selfoss í 2. sæti með 20 stig. Tvö efstu liðin vinna sér sæti í 1. deild.

Vestri hefur unnið bæði efstu liðin en hefur á móti tapað fyrir liðum sem eru í neðstu sætum deildarinnar.

Næstu tveir leikir Vestra verða á heimavelli á Ísafirði gegn Selfoss og Völsung. Bjarni segir að þessir leikir skipti miklu máli þar sem þeir séu gegn liðum sem séu líkleg til þess að fara upp.

DEILA