Vestrastelpur eru á ferð og flugi þessa dagana

Stelpurnar í yngstu flokkunum hjá Vestra hafa verið duglegar í sumar.  Í júlí fóru stelpur í 6. og 7. flokki (fæddar árin 2009-2012) á Landsbankamótið á Sauðárkróki sem ætlað er 6. flokki.  Stelpurnar stóðu sig frábærlega og vann annað liðið sína deild eftir mikla baráttu. Hitt liðið stóð sig líka frábærlega en þess má geta að þar spiluðu einnig 7. fl stelpur með og stóðu sig með mikilli prýði.

Símamótið

 

Á síðustu helgi fóru svo 40 stelpur á Símamótið í Kópavogi sem er eitt stærsta stelpnamót landsins.  Að þessu sinni voru send 6 lið til keppni í 5., 6. og 7. Flokki en það eru stelpur fæddar árin 2007-2012. Þar voru stelpurnar magnaðar og ber þar að geta að eitt 5. flokks liðið komst í undanúrslit í sinni deild en tapaði þar naumlega.  Tvö lið voru send til keppni í 6. Flokki. Annað liðið vann sína deild glæsilega á meðan að hitt liðið var hársbreidd frá því að komast í undanúrslit.

Tvö lið voru sömuleiðis send til leiks í keppni 7. flokks (fæddar 2011-2012). Annað 7. flokks liðið gerði sér lítið fyrir og vann sína deild ásamt HK en ákveðið var, eftir úrslitaleik og framlengingu hjá liðunum, að þau fengju bæði dæmdan sigur, svo jöfn voru þau.  Yngra liðið í 7. flokki stóð sig einnig frábærlega en þar voru stelpur flestar á sínu fyrsta ári í fótbolta og á sínu fyrsta fótboltamóti.

Þetta voru því talsverð átök hjá stelpunum en þegar öllu er á botninn hvolft stendur helst upp úr, að allar skemmtu stelpurnar sér konunglega enda er það aðalatriðið á svona mótum.

DEILA