Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði 1.-4. ágúst.

Unglingalandsmót UMFÍ 2019 fer fram dagana 1. – 4. ágúst á Höfn í Hornafirði. Skráningargjald er 7.500kr. HSV niðurgreiðir að hálfu skráningargjald sinna iðkenda og er verðið því 3.750 fyrir iðkendur aðildarfélaga HSV. Öll ungmenni á aldrinum 11 – 18 ára geta skráð sig til leiks. Aðrir mótsgestir greiða ekkert gjald en geta þó tekið þátt í fjölbreyttri afþreyingu og verkefnum sem boðið er upp á.

Unglingalandsmót UMFÍ hafa verið haldin frá árinu 1992. Mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Unglingalandsmótin hafa hvarvetna vakið mikla athygli og þeir fjölmörgu sem þau hafa sótt hafa verið öðrum til mikillar fyrirmyndar með allri framkomu sem er í keppni eða leik. Á Unglingalandsmóti UMFÍ koma þúsundir gesta ár hvert, þátttakendur og forráðamenn þeirra. Vinir og vandamenn sem vilja taka saman þátt í skemmtilegu móti.

Keppnisgreinar

Á mótinu geta þátttakendur valið úr fjölmörgum ólíkum keppnisgreinum. Greinarnar eru: biathlon, bogfimi, fimleikalíf, fimleikar (stökkfimi), frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhjólreiðar, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, pílukast, skák, skotfimi, stafsetning, strandblak, strandhandbolti, sund og upplestur. Á vefsíðu unglingalandsmótsins má sjá frekari upplýsingar um allar keppnisgreinar.

Afþreying

Eins og ævinlega er fjölbreytt dagskrá og afþreying fyrir alla mótsgesti yfir allt mótið. Börn yngri en 10 ára fá líka fjölmörg verkefni eins og foreldrarnir. Það verður líf og fjör á Höfn frá morgni til kvölds alla mótsdagana. Hér eru nokkur sýnishorn af því sem boðið verður uppá á Höfn: flugeldasýning, fótboltabilljard, fótboltamót barna 10 ára og yngri, fótboltapanna, fótbolti 3:3, frjálsíþróttaleikar barna, gönguferðir, kvöldvökur, tónleikar með besta tónlistarfólki landsins, ringó, sundleikar barna og margt fleira. Öll afþreying er opin og án endurgjalds.

Listamenn

Fimmtudagur 1. ágúst: DJ Sura.

Föstudagur 2. ágúst: Úlfur Úlfur og Salka Sól.

Laugardagur 3. ágúst: Daði Freyr og Bríet.

Sunnudagur 4. ágúst: GDRN og Una Stef & the sp74.

Tjaldsvæði

Tjaldsvæðið er ókeypis fyrir mótsgesti og fjölskyldur þeirra en greitt er fyrir afnot af rafmagni. Tjaldsvæðið er í göngufæri við aðalkeppnissvæðið. Tjaldsvæðið opnar á hádegi fimmtudaginn 1. ágúst. Mótshaldarar minna tjaldsvæðagesti að vera með breyti- og millistykki til að tengjast rafmagninu.

HSV hvetur sína félagsmenn til að taka þátt í skemmtilegum viðburði.

Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir,

framkvæmdastjóri HSV.

DEILA