U18 landslið karla æfir á Ísafirði um helgina

Landslið Íslands í U18 karla, sem vann til bronsverðlauna á nýliðnu Norðurlandamóti yngri landsliða í Finnlandi, æfir á Ísafirði um komandi helgi. Ein æfinganna verður opin fyrir áhorfendur. Eins og áður hefur komið fram eru tveir liðsmenn Kkd. Vestra í liðinu, bræðurnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir. Hópurinn samanstendur af 14 leikmönnum og tveimur þjálfurum en aðalþjálfari liðsins er Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Íslandsmeistara KR.

Æft verður í íþróttahúsinu á Torfnesi á föstudag, laugardag og sunnudag en hópurinn heldur suður á ný á sunnudagseftirmiðdag til frekari æfinga á höfuðborgarsvæðinu. Liðið undirbýr sig nú undir seinna verkefni sumarsins sem er Evrópumót U18 karla, B-riðill, sem fer fram í Oradea í Rúmeníu dagana 26. júlí-4. ágúst.

Tvær æfingar verða á laugardag og er sú seinni opin fyrir alla áhugasama sem vilja fylgjast með. Æfingin stendur frá 14-16. Það er mikill fengur af því að fá landsliðið vestur og hvetjum við jafnt yngri sem eldri liðsmenn Kkd. Vestra og annað körfuboltaáhugafólk til að líta við og sjá þessa ungu og öflugu körfuboltamenn við æfingar.

DEILA