Tveir Ísfirðingar á Norðurlandamót í bogfimi

Lilja Dís spennir bogann.

Um helgina var haldið í Danmörku Norðurlandameistaramót ungmenna í bogfimi. Bogfimi er nýleg íþróttagrein á Íslandi sem er innan ÍSÍ en ekki hefur verið stofnað sérsamband.

Svonefnd bogfiminefnd ÍSÍ hefur veg og vanda af því efla starfið og auka útbreiðsluna. Einnig að sjá til þess að þýða og setja nauðsynlegar reglur, löggilda dómara, ráðstafa landsmótum og staðfesta met í samráði og samstarfi við ÍSÍ. Að auki eru íþróttanefndirnar fulltrúar viðkomandi íþróttagreina gagnvart útlöndum og sjá um að reglur varðandi viðkomandi íþróttagrein séu í samræmi við alþjóðareglur í samráði og samstarfi við ÍSÍ.

Á vegum ÍSÍ voru send 18 ungmenni á Norðurlandamót ungmenna, 10 stelpur og 8 strákar.

Tveir Ísfirðingar

Átta ungmenni koma úr BF Boganum í Kópavogi, 6 úr ÍF Akur á Akureyri, 2 úr Skotfélagi Ísafjarðar, 1 frá BF Hróa Hetti í Hafnarfirði og 1 úr UMF Eflingu á Laugum Samtals eru 264 keppendur á mótinu í 3 aldursflokkum.

Ísfirðingarnir sem tóku þátt í mótinu voru Lilja Dís Kristjánsdóttir og Georg Rúnar Elfarsson. Ekki hafa borist fréttir af úrslitum í mótinu.

DEILA