Þriðji orkupakkinn: vestfirskar umsagnir

Eitt af þeim deilumálum sem hæst ber í þjóðfélagsumræðunni er um hin svonefndar þriðja orkupakka sem er til umræðu á Alþingi. Formlega heitir málið:

Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn).

Lagt er til að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til þess að staðfesta einar átta reglugerðir og tilskipanir sem varða orkuþátt EES samningsins.

Þriðji orkupakkinn er safn ESB-gerða sem varða innri markað fyrir raforku og gas innan ESB. ESB samþykkti gerðirnar í júlí 2009 og öðluðust þær gildi í september sama ár. Um er að ræða tvær tilskipanir og þrjár reglugerðir sem varða viðskipti með raforku og jarðgas og stofnun Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði (e. Agency for the Cooperation of Energy Regulators, ACER).

Þar sem framleiðsla og sala á raforku er hluti af innri markaði EES þurfa að gilda sömu reglur á öllu markaðssvæðinu og þann  hátt er leitast við  að efla samkeppni sem á að leiða til bættar þjónustu og lægra verðs fyrir neytendur. Í upphafi var ekki einsýnt að orkumálin þyrftu að vera hluti af EER samningnum hvað íslendinga varðar vegna legu landsins og því að innlendur markaður tengdist ekki evrópska markaðnum. En fyrir áratug var samþykkt á Alþingi að stíga þetta skref.

Fjölmargar umsóknir bárust Alþingi um málið, en engar sem beint koma frá Vestfjörðum. Það eru aðeins tveir umsagnaraðilar sem segja má að tengist hagsmunum Vestfirðinga beint, annars vegar HS Orka, sem stór hluthafi í Vesturverki ehf  og hins vegar Samorka, en Orkubú Vestfjarða er innan þeirra samtaka.

HS Orka styður málið

Í umsögn HS Orku segir að fyrirtækið telur að þær breytingar sem innleiddar hafa verið á Íslandi allt frá setningu raforkulaga nr. 65 árið 2003 á grundvelli fyrri orkupakka ESB hafi verið til framfara og hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Þau hafa leitt af sér framþróun, aukna samkeppni og verðlækkun raforku á Íslandi. Þá hefur innleiðingin tryggt að reglur um raforkumarkað á Íslandi eru í samræmi við það regluverk sem gildir á hinu evrópska efnahagssvæði.

Fyrir því eru færð eftirfarandi rök:

„Í fyrsta lagi hefur hið evrópska regluverk það að markmiði að koma á og auka samkeppni í
framleiðslu og sölu raforku á sama tíma og sett er skýr og hagkvæm umgjörð um flutning
og dreifingu raforku. Hefur þetta gengið eftir á Íslandi þar sem raforkuverð hefur farið
lækkandi og aðilum í framleiðslu og sölu raforku fjölgað“ segir í umsögninni.

Í öðru lagi er þýðingarmikið fyrir fyrirtæki jafnt innlend sem erlend að á Íslandi gildi sama
regluverk og á hinu evrópska efnahagssvæði.

Og í þriðja lagi, er tryggt með „upptöku reglna frá Evrópu að Ísland standi jafnfætis öðrum Evrópuríkjum í örri þróun í bæði tækni og lagasetningu á þessu sviði sem byggir á umfangsmiklum greiningum og samvinnu fjölmargra ríkja og aðila.“

Niðurstaða er að „HS Orka styður framangreind þingmál sem mikilvægt framfaraskref í þróun íslensks raforkumarkaðar og hvetur Alþingi til að veita þeim brautargengi.“

Samorka sammála

Í umsögn Samorku segir að  á aðalfundi Samorku þann 6. mars s.l. hafi verið  samþykkt ályktun þar sem samtökin lýstu yfir stuðningi við innleiðingu þriðja orkupakkans og áréttuðu um leið góða reynslu af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á skipulagi og umgjörð raforkumála síðast liðna tæpa tvo áratugi.

Þá segir að markmið Evrópusambandsins um aðskilnað milli samkeppnisþátta og sérleyfisþátta, aukið orkuöryggi, betri nýtingu framleiðsluþátta og betri nýtingu flutnings- og dreifikerfa hafi náðst sem og markmiðin um að aukin samkeppni skili neytendum lægra verði og hagstæðum viðskiptaskilmálum.

Samorka segir það misskilning í umræðunni um þriðja orkupakkann að staða og heimildir stofnunar um „Samstarfsaðila eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER)“ leiði til þess  að Íslendingar eigi það á hættu að missa yfirráð sín yfir náttúruauðlindunum til Evrópusambandsins með einhverjum óskilgreindum hætti.

Telur Samorka að þeir fyrirvarar sem koma eiga inn í íslensk lög um mögulegan sæstreng (mál 791. og 792) taki af öll tvímæli hér að lútandi.“Það verður því sjálfstæð ákvörðun Íslendinga hvort og hvenær millilandatenging kemur til álita.“

 

DEILA