Sveitarfélögin neita að greiða eingreiðslu til þeirra lægstlaunuðu

Samninganefnd sambands íslenskra sveitarfélaga neitar að greiða þann 1. ágúst eingreiðslu 105 þúsund krónur upp í væntanlega kauphækkun hjá þeim félögum innan ASÍ sem ósamið er við. Þegar hefur verið samið við nokkur félög og fá félagsmenn þeirra umrædda fjárhæð 1. ágúst. Í þeim tilvikum er samið um frið fram á haustið og nota tímann til þess að ná samningum.

Samninganefnd ríkisins hefur samþykkt að greiða eingreiðsluna til félagsmanna þeirra ASÍ félaga sem ósamið er við en sveitarfélögin hafa tekið aðra og harðari afstöðu og neita slíku samkomulagi. Í hlut eiga starfsmenn sveitarfélaga sem eru innan ASÍ félag, einkum Strafsgreinasambandsins, svo sem ræsting, skólaliðar og ýmis þjónustustörf.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga  segir það einkennilegt að þeir sem eru hærra launaðir fái eingreiðslur en ekki fólkið á lægstu laununum. Hann bendir á að ríkið sé búið að verða við þessum kröfum og að það hafi verið ríkissáttasemjari sem fór fram á að eingreiðslan yrði innt af hendi gegn friðarskyldu verkalýðsfélaganna fram á haustið.

Viðræður verkalýðsfélganna við samninganefnd sveitarfélaganna hafa gengið mjög hægt og er það einkum vegna lífeyrisréttindamála. Í síðustu kjarasamningum var samið um að jafna réttindin milli ASÍ félagsmanna og þeirr sem starfa hjá hinum opinbera og tekið frá fjármagn til þess að standa undir kostnaði.  Finnbogi segir að þetta stóra atriði hafi ekki verið efnt og að verkalýðsfélögin séu mjög ákveðin í því í þessum samningaviðræðum að ljúka því núna.

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga sendi í dag frá sér ályktun til bæjar- og sveitarstjórna á Vestfjörðum þar sem skorað er á sveitarstjórnirnar að semja um eingreiðslurnar.

ályktunin í heild:

Vegna þeirra alvarlegu stöðu sem upp er komin í samningaviðræðum við samninganefnd Sambands íslenskra sveitafélaga hefur stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga samþykkt að senda eftirfarandi áskorun til bæjar- og sveitastjórna á félagssvæði Verk Vest.

Undanfarna mánuði hefur Starfsgreinasamband Íslands (SGS), sem Verkalýðsfélag Vestfirðinga (Verk Vest) á aðild að, átt í kjarasamningsviðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga  vegna félagsmanna sinna sem vinna hjá sveitarfélögum.

Kjaraviðræður við samninganefnd sveitafélaga (SNS) hafa gengið mjög hægt og kveður við mjög harðan tón hjá SNS í viðræðum aðila. Sérstaklega steytir á í lífeyrismálum en sveitarfélögin hafa ekki staðið við fyrirheit um að jafna lífeyrisréttindi milli félagsmanna BSRB og félagsmanna SGS innan ASÍ. 

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) hefur nú þegar samið við einstök sambönd og stéttarfélög um að þeir félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögunum, skuli fá greiddar kr. 105.000  m.v. fullt starf þann 1. ágúst nk. sem greiðslu inn á væntanlegan samning. Þegar samningnanefndir SGS og Eflingar kröfðust þess að félagsmenn þeirra hjá sveitafélögunum fengju líka umrædda greiðslu var því alfarið hafnað af hálfu samninganefndar sveitafélaga með þeim rökum að SGS og Efling væru búin að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara.

Í síðustu viku bar ríkissáttasemjari fram þá ósk SGS að félagsmenn SGS fengju eingreiðslu að upphæð kr. 105.000 sem SNS hefur samið um við aðra viðsemjendur sína sem hluta af samkomulagi um endurskoðun viðræðuáætlana. Það skýtur skökku við að SNS skuli líta svo á að það sé ekki í þeirra höndum að gera samninga um skipulag kjaraviðræðna aðila þó svo SNS hafi þegar gert sambærilega samninga um eingreiðslur við önnur samtök stéttarfélaga svo sem BSRB og Samiðn.

Það er með öllu ólíðandi og er samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga til vansa að skilja þessa starfsmenn sem eru félagsmenn í Verk Vest eftir úti í kuldanum. Starfsgreinasamband Íslands og Verkalýðsfélag Vestfirðinga trúa því ekki fyrr en á reynir, að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum hyggist koma svona fram við starfsfólk sem oftast er á lægstu launum hjá sveitafélögum.

SGS og Verk Vest skora á sveitarfélögin að semja við SGS um sömu eingreiðslur og aðrir starfsmenn sveitafélaganna munu fá þann 1. ágúst nk. eða taka að öðrum kosti sjálfstæða ákvörðun um að greiða sínu fólki inn á væntanlegan kjarasamning til jafns við annað starfsfólk.

DEILA