Snyrtingar við Dynjandi: tefjast um vikur

Dynjandi var tignarlegur í síðasta mánuði eins og ávallt.

Það liggur ekki fyrir hvenær snyrtingarnar við fossinn Dynjanda í Arnarfirði verða tilbúnar. Það segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun. Hún segir að tafir hafi orðið „á þáttum sem varða skipulag og leyfismál sem tekur einhverjar vikur að klára.“

Skortur á hreinlætisaðstöðu er afar bagalegur, sérstaklega eftir að ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum til Ísafjarðar  fóru að ferðast um nágrennið. Flesta daga eru skip á Ísafirði, oft fleiri en eitt og stöku sinnum eru þrjú skip samtímis. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta koma þá margar rútur í Arnarfjörðinn og skoða Dynjanda.

Þá daga verður aðstöðuskorturinn hvað tilfinnanlegastur og landi og þjóð til hvað mest vansa.

Ekki fæst nánar upplýst hvað tefji framkvæmdir, en búið er að koma upp nýjum skálum en það á eftir að tengja bæði vatna og aðrar lagnir.

Tefur Minjastofnun málið?

Bæjarins besta fékk það staðfest hjá Minjastofnun að fundist hefðu minjar sem starfsmenn stofnunarinnar fóru fyrir helgi til að skoða nánar. En í svari við fyrirspurn Bæjarins besta fengust aðeins þau svör að málið væri í athugun og ekki væri tímabært að tjá sig um það. Samkvæmt óstaðfestum heimildum blaðsins munu hafa fundist bein og aðrir hlutir sem taldir eru frá búsetu á Dynjanda.

DEILA