RHA: Jákvæð samfélagsleg áhrif af Hvalárvirkjun

Fréttaskýring:

Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri, RHA,  vann fyrir Vesturverk ehf skýrslu um samfélagsleg áhrif af Hvalárvirkjun á Vestfirði. Skýrslan kom út í apríl 2018 og fólst í að greina helstu
samfélagslegu áhrif sem gerð Hvalárvirkjunar getur haft í för með sér fyrir Vestfirði.

Skoðuð voru áhrif virkjunarinnar á vinnumarkað og atvinnuvegi, rekstur sveitarfélaga, innviði, þjónustu og íbúaþróun og búsetu.

Lítið afhendingaröryggi

Varandi raforku og öryggi segir í skýrslunni um stöðuna að Vestfjarðakjálkinn er ekki sjálfum sér nógur í raforku og þarf að fá rafmagn flutt inn í fjórðunginn af landsnetinu. Það er flutt með Vesturlínu úr Hrútatungu í Mjólká sem er einföld tenging og gerir það að verkum að afhendingaröryggi er slakt í landshlutanum.

Landsnet gaf út skýrslu í mars 2019 um afhendingaröryggi í flutningskerfinu á Vestfjörðum og þar segir að undanfarin 10 ár, þ.e. frá 2009-2018 hafa truflanir í kerfi Landsnets valdið skerðingum 383 sinnum á Vestfjörðum eða rúmlega 38 sinnum á ári og skerðingin hefur að meðaltali verið tæplega 300 MWh á ári eða sem samsvarar um 19 klukkustundum á ári.

Mikil jákvæð áhrif af virkjun

Í skýrslu RHA segir um áhrifin af Hvalárvirkjun að hún muni hafa mikil áhrif á raforkukerfið á Vestfjarðakjálkanum. „Í raun má segja að virkjunin umbylti kerfinu, því með henni kemur mikil orkuframleiðsla inn á það innan Vestfjarða. Í fyrsta lagi mun virkjunin væntanlega leiða af sér þriggja fasa rafmagn og tvöfalda tengingu í Árneshreppi. Ennfremur verður Vestfjarðakjálkinn nettó úflytjandi raforku en ekki innflytjandi.“

Ennfremur segir í skýrslu RHA:

„Mestu áhrif virkjunarinnar á raforkukerfið á Vestfjarðakjálkanum eru líklega þau að
verkefnið, sem felst í því að koma á tvöfaldri tengingu í flutningskerfinu í öllum
landshlutanum, verður viðráðanlegt. Einungis þarf eina línu til viðbótar til að næstum
allt flutningskerfið verði með tvöfalda tengingu. Sterkasta lokaskrefið væri lína innst
úr Ísafjarðardjúp út til Ísafjarðar eða í Breiðadal í Önundarfirði. Án Hvalárvirkjunar er
tvöföld tenging raforkukerfisins á Vestfjarðakjálkanum mjög stórt verkefni.“

Öryggi hefur jákvæð áhrif á íbúaþróun

Loks segir í skýrslu RHA um raforkuþáttinn:

„Áhrif á rekstrartíma fyrir íbúaþróun Vestfjarða í heild ráðast mikið af því að hve miklu
leyti virkjunin og rafmagn frá henni bætir búsetuskilyrði þar og aðstæðum til
atvinnureksturs, þ.e. hve mikið raforkuöryggi eykst og möguleikar til að stofna til
atvinnureksturs sem reiðir sig á örugga orku og nægilegt framboð af henni. Standi
Vestfirðir vel að þessu leyti munu þeir verða samkeppnishæfari sem búsetuvalkostur.“

Landsnet – áhrif Hvalárvirkjunar mjög jákvæð

Í skýrslu Landsnets sem fyrr er nefnd segir að  talsverð uppbygging hafi verið
í atvinnulífi á sunnanverðum Vestfjörðum á undanförnum árum og fjölbreytni atvinnutækifæra hafi aukist, t.d. með tilkomu fiskeldis og kalkþörungaverksmiðju. „Mikilvægt er að takmarkanir á afhendingu raforku hamli ekki frekari uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu“ segir svo í skýrslunni.

Birtar eru myndir sem sýna áhrifin af Hvalárvirkjun á afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum. Fyrst er mynd sem sýnir tengingu Hvalárvirkjunar við landsnetið í Kollafirði.

Hún sýnir að afhendingaröryggið batnar alls staðar mikið, um 50% á norðanverðum Vestfjörðum, 73% í Geiradal 67% í Mjólká og 36% á Keldeyri.

Sé bætt við línu frá Djúpinu til Ísafjarðar verður árangurinn enn betri. Þá eykst öryggið um nærri 100% á norðanverðum Vestfjörðum, 85% í Mjólká, 71% í Geiradal og 46% á Keldeyri.

Niðurstaðan af þessum tveimur skýrslum er ótvíræð sú að miklar framfarir verða á Vestfjörðum varðandi öryggi og framboð á raforku.

-k

DEILA