RANNIBA: Tæpar fimm milljónir í styrki

Sigurður Viggósson og Friðbjörg Matthíasdóttir.

Rannsóknar- og nýsköpunarsjóður Vestur Barðastrandarsýslu úthlutaði á dögunum sjö styrkjum að upphæð kr. 4.730.000. Opnað var fyrir umsóknir úr sjóðnum í mars og bárust 10 spennandi umsóknir sem stjórn sjóðsins hefur nú metið, eftirtalin sjö verkefni hlutu styrk að þessu sinni:

Minjasafn Egils Ólafssonar hlaut tvo styrki, annarsvegar til markaðssetningar og hins vegar til uppsetningar á nýrri grunnsýningu sem heitir Látrabjarg og náttúra.

Náttúrstofa Vestfjarða hlaut líka tvo styrki, annars vegar vegna rannsókna á kalkþörungum og til vöktunar á sjávarlúsum á villtum laxfiskum í Patreksfirði.

Davíð Jónsson fær styrk til að koma á sjávarskóla þar sem nemendum í grunnskóla og/eða vinnuskóla verður gefinn kostur á að fræðast um sjávarútveg á svæðinu, bæði með vettvangsferðum og beinni kennslu.

Búbíl ehf fékk styrk til að „wappvæða“ gönguleiðir um Seljalandsskóg, verkefnið er unnið í samstarfi við Skógræktarfélag Bíldudals, Wapp gönguleiðaapp Einars Skúlasonar og Náttúrustofa Vestfjarða.

Traustur kjarni, félagasamtök sem hjálpa fólki með ýmis geðræn vandamál að komast aftur í jafnvægi og á vinnumarkað, hlaut styrk til vefsíðugerðar.

Styrkirnir voru afhentir á Safnadeginum á Minjasafni Egils Ólafssonar í blíðuveðri og að viðstöddu fjölmenni.

Í tilkynningu frá sjóðnum segir um hann:

„RANNIBA var stofnaður 2008 í framhaldi af ákvörðun ríkisvaldsins um mótvægisaðgerð vegna niðurskurðar á aflaheimilda með fjárframlagi.

Sveitarstjórnarfólk og atvinnulífið ákvað að nýta þetta framlag betur með stofnun sjóðs til að styrkja verkefni með mótframlagi a.m.k. 50% frá fyrirtækjum og félögum. Jafnframt að nýta fjármuni sjóðsins til verkefna í fiskeldi var ákveðið að styðja önnur þróunar-, nýsköpunar- atvinnuverkefni.

Sveitarfélögin tvö Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur voru stofnaðilar og er sjóðurinn skráður sem sjálfseignarstofnun. Stjórnina skipa tveir fulltrúar sveitarfélaganna, einn fulltrúi Atvinnulífsins og einn fulltrúi Háskólaseturs Vestfjarða. Þau eru nú Rebekka Hilmarsdóttir, Bryndís Sigurðardóttir, Catherine Chambers og Sigurður Viggósson. Til vara Gerður B Sveinsdóttir, Bjarnveig Guðbjartsdóttir, Peter Weiss og Skjöldur Pálmason.

Sjóðurinn setur sér verklags- og úthlutunarreglur í samræmi við stofnskrá og er þess gætt að fylgja ströngustu reglum á því sviði.

Starfsemi fyrstu árin var öflug og voru veittir styrkir til margra verkefna og reynt að halda a.m.k. 50% í höndum aðila í Vestur-Barðastrandarsýslu. Ekki þykir ástæða til að telja þau öll hér, en flest hafa skila samfélaginu aukinni velsæld. Upplýsingar um sjóðinn má finna á heimasíðu sveitarfélaganna og www.vestfirdir.is

Fyrir um 5 árum síðan var búið að úthluta ráðstöfunarfé sjóðsins að mestu og hefur því ekki verið úthlutað úr sjóðnum í 5 ár. Við uppgjör sjóðsins 2017 og 2018 skiluðu sér fjármunir til baka sem ekki höfðu verið nýttir í verkefni eða hætt var við verkefni. Það var því ljóst að í sjóðnum voru yfir 8 milljónir. króna og var ákveðið fyrr á þessu ári að úthluta um 5 mkr. til nýrra verkefna. Það er von stjórnar að frekari fjármunir fáist inn í sjóðinn og með þá von í brjósti verður auglýst eftir umsókn síðari hluta þess árs eða byrjun þess næsta. Íbúar eru hvattir til að hafa í huga þennan möguleika að koma af stað minni verkefnum á svæðinu.“

DEILA