Patreksfjörður: Ofanflóðavarnir Hólar og Mýrar – Mótmæli

Eigendur fasteignarinnar að Hólum 17, Patreksfirði hafa gert athugasemdir  við ofanfóðavarnargarð sem fyrirhugað er að reisa fyrir ofan Mýrar og Hóla á Patreksfirði. Gerðar eru athugasemdir við skert útsýni frá húsinu, við skipulagða göngustíga er standa við húsið, mögulega snjósöfnun við Hóla 15 og 17 í kjölfar ofanflóðavarna og hugsanlega hættu hlémegin við garðana. Einnig er í erindinu lýst yfir áhyggjum af grundun garðsins og mögulega vatnssöfnun hlémegin garðs.

Bréfið var lagt fram á fundi bæjarráðs Vesturbyggðar og var bæjarstjóra falið að svara erindinu í samráði við hönnuði ofanflóðavarnanna.

Í frummatsskýrslu um framkvæmdina kemur fram að Mýrargarður verður brattur varnarfleygur fyrir ofan byggð við Hóla og Mýrar, 590 m langur og 5-11 m hár yfir núverandi landi (Mynd 5.2).

Hlutverk garðsins er að stöðva flóð úr vestari hluta upptakasvæðisins ofan byggðar og taka á móti flóðum sem falla austan megin úr upptakasvæðinu og beina þeim frá byggð og út í sjó.

DEILA