Ólympísk fjallahjólakeppni á nýrri og spennandi braut á Ísafirði

Félagsmenn í óðaönn að undirbúa Íslandsmeistaramót í ólympískum fjallahjólareiðum á Dalnum sem haldið verður núna á sunnudaginn, 21. júlí. Undirbúningurinn fellst helst í gerð brautar, en mikill áhugi og samvinna er til staðar hjá Ísfirðingum.

„Þegar Hjólreiðasamband Íslands leitaði til okkar í vor með að halda Íslandsmeistaramót í keppnisgreininni XCO ákváðum við að slá til. Við stukkum svolítið út í djúpulaugina, þar sem við vissum ekki alveg hvernig brautin ætti að vera, en skipulagningin er búið að vera mikið lærdómsferli. Brautin er orðin klár og þetta verður helluð keppni.“ Segir Heiða Jónsdóttir, mótsstjóri og stjórnarmaður í Vestra hjólreiðum.

Ísfirðingar eru þó ekki óvanir því að halda Íslandsmeistaramót og önnur stórmót á Dalnum, en Seljalandsdalur, þar sem mótið verður haldið er skíðagöngusvæði þeirra Ísfirðinga.

„Brautin, sem hefur fengið heitið Dalurinn, er rúmlega 4 km löng og hjóla keppendur miserfiða keppni eftir flokkum. Brautin er að nokkru leyti gerð á grunni gönguskíðabrautar en síðan eru allskonar krúsídúllur og flækjur til að gera hana meira spennandi. Þar sem brautin er á skíðagöngusvæðinu er hún sérstaklega skemmtileg.“ bætir Heiða við.

Að sögn Heiðu er keppnin sérstaklega áhorfendavæn og mikið verður lagt upp úr stuði og stemningu á Dalnum. Skráning í mótið fer fram á vef Hjólreiðsambands Íslands.

Vestfirðingar eru ekki aðeins að halda XCO mót á helginni, heldur verður jafnframt keppt í Skálavíkurhjólreiðum og Vesturgötunni sem er nú orðin fræg keppni hérlendis. Vestri stendur síðan fyrir Opnu Vestfjarðarmóti barna og unglinga í fjallahjólreiðum. En með stofnun hjólreiðadeildar Vestra hefur mikið sjálfboðaliðastarf verið unnið við lagningu ólíkra fjallahjólabrauta, námskeiðum fyrir börn og unglinga og hjólakvöldum fyrir unglinga og börn.

„Okkur finnst rugl skemmtilegt að fá gesti viljum við því benda hjólaþyrstum gestum á að opnaðir hafa verið nýir fjallahjólastígar á frá heiðinni og dalnum. Stígarnir hafa allir verið unnir í sjálfboða vinnu og öll hjálp er mjög vel þegin við að hjóla þá til. Þeir sem hafa áhuga á að koma að leggja málefninu lið get lagt inn á félagið í gegnum Aur á símanúmerið 849-9111.“ Bætir Heiða að lokum við.

DEILA