Ófremdarástand við Dynjanda

Dynjandi var tignarlegur í síðasta mánuði eins og ávallt.

Í gær var ófremdarástand við Dynjanda í Arnarfirði. Þar var margt ferðamanna, innlendra sem erlendra. En aðeins gömul snyrtiaðstaða var opin og var það víðs fjarri því sem þörf var á. Ferðamenn sem höfðu samband við Bæjarins besta sögðu ekki farir sínar sléttar. Gestir komust ekki á snyrtingu og hefðu orðið að fara afsíðis undir berum himni.

Veitt hefur verið myndarleg fjárveiting til þess að koma upp betri aðstöðu og eru ný hús risin en þau voru bæði lokuð og læst.

Bæjarins bestra hafði samband við Umhverfisstofnun en þar gekk illa að fá skýringar. Voru þeir starfsmenn í sumarleyfi sem helst gátu svarað því hvers vegna ekki væri búið að opna nýju aðstöðuna.

Landvörður á svæðinu sagði að ekki væri búið að tengja lagnir og rafmagn við nýju húsin og því væri aðstaðan ekki tilbúin. Hann gerði sitt besta til þess að fá upplýsingar um það hvenær nýju mannvirkin yrðu tilbúin fyrir ferðamenn en gat ekki aflað þeirra að sinni.

DEILA