Ófeigsfjarðarvegur : þjóðvegur og á forræði Vegagerðarinnar um árabil

Ófeigsfjarðarvegur. Mynd: Vegagerðin.

Ófeigsfjarðarvegur hefur verið í fréttunum undanfarið vegna endurbóta á veginum sem fram fara í sumar á vegum Vesturverks ehf.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta var vegarslóðinn upphaflega ruddur á áttunda áratug síðustu aldar vegna rannsókna á möguleikum þess að virkja Hvalá. Það mun hafa verið Orkustofnun sem stóð fyrir vegagerðinni.

Vegagerðin hefur birt eftirfarandi samantekt um veginn:

„Ófeigsfjarðarvegur (649) nær frá Strandavegi að Hvalá og liggur m.a. um Eyri við Ingólfsfjörð. Vegurinn er þjóðvegur og hefur frá árinu 2004 verið skráður landsvegur í vegaskrá Vegagerðarinnar. Vegagerðin hefur verið veghaldari vegarins en hefur nú samið við Vesturverk um tímabundið veghald.

Vegir í tölu þjóðvega sem haldið hefur verið við af almannafé um áratugaskeið, hafa af dómstólum verið taldir tilheyra íslenska ríkinu þrátt fyrir að formleg skjalfest eignarheimild liggi ekki fyrir, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 1980:920, Hrd. 644/2006 og Hrd. 583/2014.

Samkvæmt samningnum, þar sem veghald Ófeigsfjarðarvegar er falið Vesturverki, skal Vesturverk annast alla samninga við landeigendur vegna framkvæmda á veginum sem nú standa yfir reynist þörf á því. Ekki hefur verið gert ráð fyrir breytingum á veglínu vegarins í þeim framkvæmdum sem Vesturverk hyggst fara í á veginum og því framkvæmdir nær eingöngu í óbreyttu vegstæði. Ítrekað hefur verið við Vesturverk að standa þannig að málum varðandi landeigendur auk þess að allar breytingar og lagfæringar séu gerðar í samráði við og samkvæmt reglum Vegagerðarinnar.

Vesturverk hefur ráðið verkfræðistofuna Verkís sem ráðgjafa við undirbúning og forhönnun Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði auk úrbóta á Ófeigsfjarðarvegi, en í því felst bæði verkfræði- og skipulagsráðgjöf. Vegagerðin telur því að Vesturverk hafi yfir að ráða tæknilegri þekkingu til að annast veghaldið.

Ófeigsfjarðarvegur er á aðalskipulagi Árneshrepps 2005 – 2025 og þess getið að stofnmarkmið vegna samgagna sé m.a. að „vegur norður í Ófeigsfjörð verði byggður upp í hinni sömu veglínu og núverandi slóð liggur.“

Vegagerðin lagði Ófeigsfjarðarveg (649) frá Strandavegi að Eyri í Ingólfsfirði en frá Eyri var rudd slóð norður að Hvalá. Mun Árneshreppur hafa haldið slóðinni við og endurbætt hana og fengið til þess styrki frá Vegagerðinni. Vegurinn hefur verið notaður m.a. af ferðamönnum auk þess að vera aðkoma að jörðum. Á árunum 2003 – 2004 var veitt um 2,4 milljónum kr. af fjárheimildum Vegagerðarinnar í lagfæringar vegarkaflans frá Eyri að Hvalá. Hingað til hefur ekki annað legið fyrir en að þessar vegabætur hafi verið unnar í góðu samkomulagi við landeigendur enda til þess fallnar að bæta samgöngur við þær jarðir sem þar eiga í hlut.“

DEILA